131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Trúnaðarstörf sendiherra fyrir stjórnmálaflokka.

450. mál
[14:01]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður veit er það ekki ég sem skipaði Þorstein Pálsson til starfans. Ég tilnefndi hann en forsætisráðherrann skipaði hann, svo að við höfum það allt á hreinu. Það er óþarfi að fara rangt með það. Ég tilnefndi. (MÁ: Sem formaður Sjálfstæðisflokksins?) Ég tilnefndi hann en ég skipaði hann ekki eins og hv. þingmaður sagði. (MÁ: Sem formaður Sjálfstæðisflokksins.) Hv. þingmaður fór rangt með og það hefur nú verið leiðrétt.

En vegna þess sem hv. þingmaður nefndi um að hann þyrfti frekari og gleggri rök frá mér gagnvart þessari skipun er ég algjörlega ósammála honum um það. Mat mitt er það að rökin fyrir skipun Þorsteins Pálssonar til þessa starfs, tilnefningar fyrst og skipunar svo, séu glögg og augljós og að ég hafi flutt þau fram og frekari þurfi ekki við. Það er mitt mat. Hann fær ekkert frekari rök en þessi.