131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Hámarkshraði á tvöfaldri Reykjanesbraut.

452. mál
[14:13]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Telur ráðherra eðlilegt að hækka hámarkshraða ökutækja á tvöfaldri Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar?“

Markmiðið með tvöföldun brautarinnar er fyrst og fremst að auka öryggi á þessari fjölförnu leið. Þegar tvöföldun brautarinnar er lokið tel ég eðlilegt að Vegagerðin og Umferðarstofa fylgist með tíðni slysa og alvarlegra slysa og beri saman við tölur fyrri ára. Tíminn mun leiða í ljós hvort alvarlegum slysum á brautinni fækkar eins og allar ástæður ættu að gefa tilefni til. Með hliðsjón af þeirri reynslu er mögulegt að draga ályktanir varðandi öruggan ökuhraða á tvöfaldri Reykjanesbraut en ég tel afar varhugavert að gera einhverjar breytingar í þá veru að hækka hámarkshraðann núna. Ég er ekki tilbúinn til að gefa yfirlýsingar á þessu stigi um að það sé eðlilegt, þrátt fyrir tvöföldun allrar brautarinnar, að þá séu færi til þess að hækka hámarkshraðann. Ég tel að það verði að skoða afar vandlega og er ekki tilbúinn til að gefa undir fótinn með það á þessu stigi.

Síðan er spurt: „Var gert ráð fyrir hækkun hámarkshraða við hönnun brautarinnar?“

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er hönnunarhraði á tvöfaldri Reykjanesbraut þegar hún er fullbúin 110 km á klukkustund. Brautin er hönnuð án vegriða. Samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, er mesti leyfilegi hámarkshraði hins vegar 100 km á klukkustund. Ég tel engu að síður eðlilegt að þessi hönnunarviðmiðun sé viðhöfð við gerð brautarinnar.

Síðan er spurt: „Kemur til greina að mati ráðherra að hafa mismunandi hámarkshraða sumar og vetur?“

Ég tel það slæman kost að hafa mismunandi hraðamörk þarna en það þarf að velja hæfilegan hámarkshraða á Reykjanesbrautinni tvöfaldaðri miðað við þær aðstæður sem þá verða. Það er alveg ljóst að mismunandi hraðamörk á slíkri braut eftir árstíðum gætu valdið ruglingi og orðið ástæða til þess að fólk færi yfir leyfilegan hámarkshraða.

Á það er að líta að einungis örfáar mínútur sparast á þessari leið með því að aka 10 km hraðar en leyfilegur hámarkshraði er núna. Ég tel að þjóðin hafi ágætlega efni á því og hafi nægan tíma til þess að aka þessa leið, sem er nú ekki löng, á þeim hæfilega hámarkshraða sem núna er leyfður.

Ég tek undir það sem hv. fyrirspyrjandi sagði, ökuhraðinn virðist hafa aukist. Það er miður. Við vitum að alvarlegustu slysin verða þegar of hratt er ekið. Þrátt fyrir að þetta sé góður vegur miðað við það sem almennt gerist hér á Íslandi er það engu að síður svo að slysin verða jafnvel við bestu aðstæður vegna mikils ökuhraða. Ég tel að það þurfi að gæta sín í þeim efnum.

Aðeins vil ég samt nefna það út af þessari fyrirspurn um mismunandi hámarkshraða að við teljum að víða á þjóðvegum landsins séu aðstæður þannig að það sé eðlilegt að taka upp breytilegan hámarkshraða til þess að vara ökumenn við slæmum köflum. Sums staðar er bundið slitlag og hámarkshraði leyfður en síðan koma erfiðir kaflar með beygjum og brekkum og þá er ekki úr vegi að hafa þar lægri hámarkshraða og vara þannig við verstu köflum þjóðvegakerfisins.