131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Hámarkshraði á tvöfaldri Reykjanesbraut.

452. mál
[14:20]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. samgönguráðherra er varfærinn eins og hann á að vera. Þó held ég að ástæða sé til að fagna því að til stendur að draga ályktanir af rannsóknum sem fram fara þegar Reykjanesbrautin er orðin eins og hún á að vera.

Ég verð að segja að sem nýr þátttakandi í hraðanum á þjóðvegum þeim sem hér um ræðir, þ.e. meira en göngu- eða hjólreiðahraða, hef ég komist að því að skilti við þjóðvegi um hraðatakmarkanir séu að mestu eins konar myndlistarverk. Hraðinn er í engu samræmi við þann hraða sem skiltin segja til um. Menn fara í raun hver á sínum eigin hraða. Ég held að stefnumarkið eigi að vera að við ákveðum ákveðinn hraða á hverjum vegi og farið sé eftir þeim hraða. Til þess þarf ýmislegt að koma til. Þar á meðal, eins og hæstv. ráðherra sagði, þarf að hægja á þegar það þarf en líka að gefa möguleika á auknum hraða þegar það á við. Ég veit ekki hvar það á við ef það á ekki við á hinni tvöföldu Reykjanesbraut framtíðarinnar.