131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Hámarkshraði á tvöfaldri Reykjanesbraut.

452. mál
[14:22]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem þátt hafa tekið í umræðunni.

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að markmiðið með því að tvöfalda Reykjanesbrautina var aðallega að auka þar öryggi, að tryggja betur öryggi vegfarenda sem um brautina færu. Verstu slysin sem á brautinni urðu urðu við framanákeyrslu og með tvöföldun er komið að mestu í veg fyrir þá hættu.

Frá því tvöföldun lauk á þeim kafla sem nú hefur verið tekinn í notkun, hefur eftir því sem ég best veit ekki orðið alvarlegt slys og ber að sjálfsögðu að fagna því. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að hönnunarhraði brautarinnar er 110 km hraði. Ég held að margir bílstjórar séu þegar farnir að aka á þeim hraða á brautinni þrátt fyrir að hámarkshraði sé samkvæmt þeim skiltum sem uppi eru 90 km.

Það er kannski að einhverju leyti eðlilegt að svo sé gert því að vegurinn er virkilega góður og menn fyllast ákveðinni öryggistilfinningu þegar þeir koma inn á þessa tvöföldu kafla og allt önnur akstursskilyrði en tíðkast á Íslandi á þjóðvegum landsins.

Hitt er annað mál að maður veltir fyrir sér 90 km hámarkshraðanum á ýmsum vegum á landinu. Það tók t.d. sveitarstjórnina í Vatnsleysustrandarhreppi á annað ár að fá Vegagerð ríkisins til að lækka hámarkshraða á mjóum Vatnsleysustrandarvegi, sem rétt er ein bílbreidd af slitlagi, úr 90 km hraða í 70 km hraða. Þegar maður veltir því fyrir sér að það eigi að vera sami hámarkshraði á þeim vegi, með bundið slitlag sem nemur nánast einni bílbreidd, og tvöfaldri Reykjanesbraut þá er það mjög skrýtið.

Ég er sammála ráðherra. Það á að fara hægt í þessu máli. Menn eiga ekki að flýta sér og flas er ekki til fagnaðar. En ef brautin þolir 110 km hraða þá eigum við að fara upp í þann hraða.