131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.

451. mál
[14:39]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég átti nýlega leið til Keflavíkur í veðri og færð svipaðri og þeirri sem nú er fyrir utan. Þá sá ég svart á hvítu eða réttara sagt fann það rautt í gráu slabbi hversu þörf framkvæmdin er, þ.e. tvöföldun Reykjanesbrautar.

En ég ætlaði að nota tækifærið til að fagna þeim boðskap sem ráðherra hefur nýlega lagt fram um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og óska þess að honum takist jafnvel að fá stuðning á Alþingi við þá framkvæmd og við tvöföldun Reykjanesbrautar því þar er ekki síður um mikilvægt málefni að ræða og réttlætismál, að Vestfirðingar fái úrbætur í vegamálum sínum.