131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Samgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.

451. mál
[14:42]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að hv. þm. Mörður Árnason geti hvergi fundið að ég hafi lýst yfir einhverri andstöðu við samgöngubætur á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar. Ég hef sýnt það í verki að ég tel afar mikilvægt að tvöfalda brautina alla. Reykjanesbrautin hefur verið mjög til meðferðar á framkvæmdasviðinu að undanförnu, við höfum breikkað hana allverulega upp úr Reykjavík og sett mislæg gatnamót bæði í Stekkjarbakka og í Mjóddinni sem hefur stórbætt aðstöðuna. Þetta hvort tveggja hefur verið gert í tíð minni sem samgönguráðherra. Uppi eru áætlanir um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar í gegnum Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð og áfram suður úr þannig að innan tíðar verður þetta afkastamesta braut landsins. Það stendur því ekki á mér að leggja verkefninu það lið sem eðlilegt er að samgönguráðherra geri. Um það erum við sjáanlega sammála, ég og hv. fyrirspyrjandi.

Ég held að umræðan um framtíð Reykjavíkurflugvallar sé gagnleg. Það liggur alveg fyrir hvernig þau mál standa um þessar mundir og búið að leggja mikla fjármuni í það. Ég heyri að ýmsir eru að átta sig á mikilvægi flugvallarins, m.a. hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Mér hefur sýnst að fjölgað hafi fremur en hitt í stuðningsmannaliði Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni upp á síðkastið.