131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flugsamgöngur til Ísafjarðarbæjar.

507. mál
[14:57]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Almennt er það auðvitað um Vestfirðinga að segja að þeir eiga meira undir fluginu en aðrir landsmenn vegna þess hversu þar háttar til sem allir vita.

Það er hins vegar þannig að þær mínútur sem ekki teljast langar á veginum milli Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvallar eru allt í einu orðnar mjög miklu lengri þegar þarf að fljúga sömu vegalengd. Mér finnst það svolítið skrýtin skynjun á tímanum hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur. (Gripið fram í.)

Það er svo um Reykjavíkurflugvöll og stöðu hans að segja að um hann eru sennilega deildar meiningar í öllum flokkum og leggst einhvern veginn þannig að þeir sem telja sig vera af landsbyggðinni og gæta hagsmuna hennar hafa sérkennilega ást á Reykjavíkurflugvelli. Skynsemdarmenn horfa hins vegar til þess að hann sé á förum. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur skipað sér þar í flokk sem þingmaður Suðurk. og það verður hún auðvitað að eiga við sig.

Sjálfstæðismenn, m.a. í Reykjavík, eru sennilega að meiri hluta til, t.d. í borgarstjórn, á móti þessum flugvelli hér og vilja flytja hann þannig að hún getur líka talað við sína eigin flokksmenn um þetta mál.