131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Svartfugl við Norðurland.

463. mál
[15:07]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Svartfugladauða varð að þessu sinni vart alvarlega veturinn 2001–2002. Rannsóknir á dauðum og deyjandi fuglum fyrsta veturinn sýndu að þeir höfðu drepist úr fæðuskorti. Mest drapst veturinn 2001–2002 af langvíu og stuttnefju. Ítarleg skýrsla sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands, þeirra Ólafs K. Nielsens og Ólafs Einarssonar, um þessa atburði hefur verið birt í tímaritinu Náttúrufræðingnum.

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar hafa tekið sýni af reknum fuglum alla vetur síðan og það sama hefur komið í ljós, þ.e. að fuglarnir hafa drepist úr hor og eru eins og áður langmest langvía og stuttnefja.

Uppruni þeirra svartfugla sem rekur á fjörur landsins að vetri er væntanlega ólíkur. Merkingargögn benda til að íslenskar langvíur haldi sig fyrst og fremst við landið yfir veturinn en að íslenskar stuttnefjur fari vestur og suður á bóginn og hafi vetursetu undan vesturströndum Grænlands og Nýfundnalands. Þær stuttnefjur sem hér hafa vetursetu verpa hins vegar á Bjarnarey og Svalbarða. Fækkun stuttnefju í Noregi getur þannig tengst breytingum á fæðuskilyrðum við Ísland.

Varðandi hugsanleg tengsl loftslagsbreytinga og sjófugladauða við Íslandsstrendur nú er rétt að benda á að hliðstæðir atburðir hafa verið þekktir í langan tíma, bæði í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi. Heimildir um fjöldadauða svartfugla hér við land ná allt aftur til ársins 1327. Atburðir þessum líkir hafa því þekkst miklu lengur en sú hlýnun andrúmsloftsins sem nú á sér stað.

Það er á hinn bóginn ekki ólíklegt að þessi fjöldadauði svartfugla sé veðurfarstengdur og nægir í því sambandi að nefna kerfisbundnar breytingar á veðurfari í Norður-Atlantshafi sem á sér hliðstæðu í El Niño í Kyrrahafi. Þessar skammtímabreytingar eða sveiflur í veðurfari hafa verið tengdar breytingum á afkomu dýrastofna jafnt á láði sem legi á mjög stórum svæðum við Norður-Atlantshaf. Miðað við áhrif skammtímaveðursveiflna er afar líklegt að þær loftslagsbreytingar sem nú eru hafnar og spáð er muni hafa víðtæk áhrif á sjófuglastofna á Norður-Atlantshafi. Niðurstöður rannsókna sjófuglahóps lífríkisnefndar Norðurskautsráðsins, sem er kallaður CAFF, sem verða birtar á næstunni styrkja þessa skoðun.

Óyggjandi svör við því hvort sá sjófugladauði sem við höfum orðið vitni að undanfarna vetur sé óvenjulegur eða ekki fást einungis með því að vakta á kerfisbundinn máta strandlengju landsins og telja það sem rekur. Jafnframt þyrfti að vakta svartfuglastofna með reglubundnum talningum í fuglabyggðum á vorin og rannsaka afkomu og fæðuvistfræði þeirra. Sjófuglahópur CAFF hefur gert verndar- og vöktunaráætlun um svartfugla á norðurslóðum og Náttúrufræðistofnun hefur gefið út framkvæmdaáætlun fyrir Ísland sem gæti orðið góður grunnur að slíkum rannsóknum.

Miðað við stærð sjófuglastofna hér við land, þekkingu á vistkerfi hafsins og legu landsins í miðju Norður-Atlantshafinu er Ísland í lykilaðstöðu á alþjóðavettvangi til að rannsaka tengsl sjófugla, fæðu þeirra og loftslags. Afkoma sjófugla getur einnig verið mikilvægur vísir á ástand sjávar. Miðað við þessar forsendur er full ástæða til að efla sjófuglarannsóknir við Ísland og það yrði þá gert í samvinnu Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands. Hef ég óskað eftir tillögum Náttúrufræðistofnunar um hvernig slíkt megi best gerast.