131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Svartfugl við Norðurland.

463. mál
[15:12]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er afar áhugavert og spennandi umhugsunarefni sem hv. fyrirspyrjandi leggur fram fyrir okkur. Það hvernig lífkeðjan er að fara hjá okkur er áhyggjuefni. Við sjáum í kringum landið skinhoraðan þorsk, margra ára þorsk, t.d. fimm ára þorsk upp á 1,5 kíló. Það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni hvort við erum ekki að fara illa með grunn í fæðukeðjunni, ekki bara með því að skemma flóruna í hafinu sem er t.d. undirstöðufæða sandsíla heldur líka með ofveiði úr loðnustofninum. Veiðiheimildir á loðnu miðast, eftir því sem mér skilst, við endurnýjunargetu stofnsins fyrir sjálfan sig en það þarf líka að vera eitthvað afgangs fyrir önnur dýr í lífríkinu sem nærast á henni, þ.e. fyrir þorsk og fugla. Ég held t.d. að ekki sé nógu mikið tillit tekið til þess þegar veiðiheimildir eru ákveðnar.