131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[10:43]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Kosningarnar í Írak, framkvæmd þeirra og niðurstöður eru öllum lýðræðisþjóðum fagnaðarefni. Í því ljósi hef ég allan skilning á því að hér sjái hv. þingmenn ástæðu til að vekja athygli á því að það er ljós í myrkrinu í þessu stríðshrjáða landi. En ég hygg, og vona að ég sé ekki neinn veisluspillir þegar ég vek athygli á því, að langt sé því frá að viðunandi ástand, hvað þá viðunandi framtíð, blasi við Írökum þrátt fyrir það að kosningar séu afstaðnar og hafi tekist bærilega. Því miður geisar stríð í landinu, borgarastyrjöld, fólk deyr þar á hverjum degi, í hópum stundum, og þeir skipta tugþúsundum, þeir Írakar sem hafa látið lífið vegna þessa ástands sem varað hefur eftir árásina í mars 2003. Þannig er nú veruleikinn, herra forseti.

Til viðbótar þessu hafa hryðjuverkahópar haslað sér völl í landinu, ekki eingöngu til að herja á Íraka og hernámslið Breta, Bandaríkjamanna og fleiri þjóða heldur líka til að stríða á þjóðir utan Íraks. Þeir hafa með öðrum orðum sett niður hreiður sitt í þessu stríðshrjáða landi.

Í þriðja lagi vek ég athygli á því, herra forseti, sem margoft hefur verið gert í þeim 149 ræðum sem hér hafa verið haldnar, að engin hafa þau gereyðingarvopnin fundist sem voru meginástæða innrásarinnar á sínum tíma.

Ég vil að lyktum segja þetta: Ég hygg að rétt hafi verið að verki staðið hjá hæstv. utanríkisráðherra þegar ákvörðun var tekin um að styðja uppbyggingu í Írak á þann veg að leggja fé til hennar fyrst og síðast í stað þess að senda friðargæslumenn á vettvang. Við þekkjum það af eigin reynslu að við þekkjum ekki til verka þegar stríð geisar í löndum. Við þekkjum það hins vegar vel og kunnum vel til verka þegar þarf að byggja upp, hlúa að og vinna mannbætandi verkefni á vettvangi hjúkrunar og fleiri þátta. Ég vænti þess og vona sannarlega að til þess komi einhvern tíma í Írak að við getum lagt hönd að því verki þótt síðar verði.