131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[10:45]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Allir þeir sem tóku þátt í nýafstöðnum kosningum í Írak sýndu vilja og viðhorf sem án efa bærist í hjörtum allra Íraka, að fá að lifa eðlilegu og friðsömu lífi í landi sínu. Þótt Írakar búi nú við hernám og ofbeldi skulum við ekki gleyma því að þjóðin hefur mátt þola harðræði og styrjaldir í hátt á þriðja áratug, fyrst í grimmilegu stríði við Íran þar sem milljónir féllu og afleiðingar viðskiptabannsins sem landið mátti þola á síðasta áratug og alveg fram undir innrásina í mars 2003 verða varla ofmetnar.

Það nöturlega við stöðu Íraks og íröksku þjóðarinnar er að hún gæti verið ein ríkasta þjóð í heiminum, þ.e. ef hún sjálf fengi að njóta eigin auðlinda, en talið er að í Írak kunni að vera eins miklar olíuauðlindir og á öllum Sádí-Arabíuskaganum, staðreynd sem skýrir án efa hvers vegna Írak hefur verið bitbein nýlenduveldanna og á síðari tímum olíurisanna sem ásælast þessar auðlindir. Háttvirtir menn í ríkisstjórn Bush hafa viðurkennt að yfirráð yfir olíunni hafi verið ástæða innrásar Bandaríkjamanna.

Varðandi kosningarnar er enn of snemmt að segja til um framhaldið en hitt er víst að þessar kosningar hefðu ekki verið viðurkenndar neins staðar annars staðar sem frjálsar og lýðræðislegar kosningar. Enda þótt tæplega þriðjungur landsmanna hafi tekið þátt í þeim var framkvæmdin í molum. Í heilum byggðarlögum og borgum áttu menn ekki kost á að kjósa ýmist vegna hættu á ofbeldi eða vegna þess að engar kjörskrár voru búnar til.

Það er góðra gjalda vert að ræða kosningarnar í Írak á Alþingi Íslendinga en ég vek athygli á því að Alþingi er meinað að fá upplýsingar um aðkomu ríkisstjórnar Íslands að innrásinni í Írak en málshefjandi í þessari umræðu var á meðal þeirra sem greiddu atkvæði gegn því að leynd yrði aflétt af gögnum um það mál.