131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[10:52]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Velheppnuðum kosningum í Írak er lokið. Þrátt fyrir að hryðjuverkamenn hafi reynt sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir kosningar og fæstir hafi talið líklegt að þær gætu farið fram tala tölurnar sínu máli. 60% kosningaþátttaka er í rauninni ævintýralegt í ljósi þess að fólk gekk að kjörborðinu þrátt fyrir hótanir vígamanna.

Svo tala menn hér, sem búa við frið og lýðræðislegt fyrirkomulag, um ófullkomnar kosningar. Þær voru auðvitað ekki ófullkomnar. Við skulum ekki gleyma því við hvaða aðstæður fólk gekk að kjörborðinu. Það gekk að kjörborðinu þrátt fyrir hótanir vígamanna. Þessar kosningar eru, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði, einn merkasti atburðurinn í okkar sögu.

Hver var forsenda kosninganna? Hvers vegna voru þær mögulegar? Hver var forsenda uppbyggingarstarfsins sem allir tala núna um að þeir vilji styðja og vilji stuðla að? Forsendan var þessi úthrópaða innrás í Írak. Án hennar væri harðstjórinn Saddam Hussein enn þá við völd, það hefðu engar kosningar farið fram, engar forsendur verið til staðar fyrir endurreisnarstarfið eða uppbyggingu. Þeir sem voru andsnúnir innrásinni í Írak ættu að gefa þessu gaum. (Gripið fram í.) Og ég skora á þá að endurskoða afstöðu sína í þessu ljósi og í ljósi þeirrar lýðræðiseflingar sem kosningarnar eru fyrir Írak og jafnvel í öllum þessum heimshluta eins og menn hafa verið að benda á.

Hérna er kosningunum almennt fagnað. En verðum við ekki að viðurkenna samhengið, skoða þessi mál í eðlilegu, pólitísku sögulegu samhengi? Líka þeir sem alla daga úthrópa Íraksmálin en segjast samt sem áður fagna kosningunum og fagna uppbyggingarstarfinu.

Írakar eru sundruð þjóð. Þar ríkir mikil heift, hörmungarástandið er gróðrarstía fyrir öfgaöfl. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að skapa sem breiðasta samstöðu á grundvelli bráðabirgðastjórnarskrárinnar meðal Íraka og bráðabirgðastjórnarskráin er að mínu mati plagg sem getur lagt grundvöll að þessu og við eigum að sjálfsögðu að styðja við endurreisnarstarfið eins og við höfum verið að reyna að gera með því að stuðla að þeirri lýðræðisþróun sem við sjáum upphafið að með þeim velheppnuðu kosningum sem núna er nýlega (Forseti hringir.) lokið í Írak.