131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[10:57]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í öllum þeim hörmungum sem gengið hafa yfir íröksku þjóðina má segja að örlítið færist þjóðin í átt að lýðræði og bjartari framtíð vonandi með því að þar voru haldnar lýðræðislegar kosningar. Verðum við ekki að leyfa okkur að vona að þar með hafi verið stigið fyrsta skrefið í átt til lýðræðis? Jafnframt er ljóst að sátt innan þjóðfélagsins er ekki í hendi með kosningunum enda þátttaka súnníta lítil. Í Írak þurfa ósamstæð öfl og þjóðarbrot að ná saman svo að friður geti orðið í landinu til frambúðar.

60% þjóðarinnar tóku þátt í kosningunum og verður það talin marktæk þátttaka við ríkjandi aðstæður og athygli vekur að konur fengu góða kosningu. Ég læt í ljós þá von að raunverulegt lýðræði nái að festast í sessi íröksku þjóðinni og heimsbyggðinni til góðs. Írakar eiga mikinn olíuauð og eiga að geta orðið efnahagslega sjálfstæð þjóð. Stríðshörmungarnar í Írak verða hins vegar ekki réttlættar með kosningunum einum. Stríð færir mannkyni ekki réttlæti.

Og minnast mega menn þess þegar talað er um að konur hafi náð merkum áfanga í Írak hversu margar konur og börn létu lífið í þessu hörmungarstríði.