131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Breyting á XXII. viðauka við EES-samninginn.

436. mál
[11:13]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2004, um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun 2003/58/EB, um birtingarskyldu félaga af tiltekinni gerð.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir. Með tilskipuninni eru gerðar breytingar á fyrstu félagaréttartilskipuninni frá 1968 varðandi skráningu félaga þannig að skrá megi upplýsingar í hlutafélagaskrá rafrænt. Er markmiðið með breytingunni að auðvelda hagsmunaaðilum að hafa greiðan og skjótan aðgang að upplýsingum um félög og einnig að einfalda formsatriði um birtingu upplýsinga. Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar í viðskiptaráðuneytinu.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.