131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Meinatæknar og heilbrigðisþjónusta.

537. mál
[11:20]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meinatækna, nr. 99/1980, og lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er komið til móts við óskir meinatækna um að starfsheiti þeirra verði breytt úr meinatæknir í lífeindafræðingur og ákvæði um að meinatæknir starfi á ábyrgð og undir handleiðslu sérfræðings verði fellt brott. Einnig er sett í lögin heimild til þess að setja í reglugerð ákvæði um sérfræðiviðurkenningu lífeindafræðings.

Tækniháskóli Íslands annast nú menntun meinatækna. Í október síðastliðnum varð samkomulag um stofnun nýs háskóla með samruna Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands og er stefnt að því að starfsemin verði endanlega sameinuð sumarið 2005. Því er lagt til að ekki verði gert ráð fyrir því í lögunum að lífeindafræðingar skuli hafa lokið prófi frá tilteknum háskóla, heldur verði vísað til háskóla hér á landi, þannig að það eigi við um þann eða þá háskóla sem hverju sinni annast menntun lífeindafræðinga.

Með aukinni sérhæfingu meinatækna/lífeindafræðinga hafa komið fram óskir um að heimilt verði að veita sérfræðileyfi í lífeindafræði. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um veitingu sérfræðileyfa að fengnum tillögum landlæknis, Félags lífeindafræðinga og háskóla eða háskóladeildar sem menntar lífeindafræðinga.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um að meinatæknir starfi á ábyrgð og undir handleiðslu sérfræðings verði fellt brott. Slík ákvæði er ekki að finna í lögum um aðrar heilbrigðisstéttir með hliðstæða menntun og verður ekki séð að nauðsynlegt sé að hafa sérstakt ákvæði í lögum um ábyrgð á störfum lífeindafræðinga fremur en annarra hliðstæðra stétta. Ekki er gert ráð fyrir að niðurfelling þessa ákvæðis leiði til þess að gera þurfi breytingar á starfsemi eða stjórnfyrirkomulagi rannsóknadeilda og rannsóknastofa sjúkrahúsa eða annarra heilbrigðisstofnana.

Meinatæknar hafa um alllangt skeið óskað eftir að starfsheiti þeirra verði breytt. Landlæknisembættið kannaði m.a. starfsheiti hliðstæðra stétta í nálægum löndum og enn fremur var höfð hliðsjón af starfsheitum annarra heilbrigðisstétta. Í samræmi við óskir meinatækna og að höfðu samráði við landlækni er lagt til að heiti fræðigreinarinnar breytist úr meinatækni í lífeindafræði og starfsheiti meinatækna verði lífeindafræðingur. Í samræmi við það er lagt til í 4. gr. frumvarpsins að heiti laganna verði lög um lífeindafræðinga.

Samkvæmt gildandi ákvæði 6. gr. laga um meinatækna er ljóst að meinatæknir getur ekki fengið leyfi til að reka rannsóknastofu, nema hann ráði lækni sem er sérfræðingur á viðkomandi sviði og þeir meinatæknar sem starfa á rannsóknastofunni, þar með talinn rekstrarleyfishafi, starfi undir handleiðslu og á ábyrgð sérfræðings.

Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga um heilbrigðisþjónustu veitir ráðherra stofnun því aðeins leyfi að ætla megi að hún geti leyst verkefni sitt á viðunandi hátt og skal hann leita álits landlæknis um nauðsyn og gagnsemi stofnunar. Til að tryggja frekar að stofnanir sem sótt er um rekstrarleyfi fyrir uppfylli faglegar kröfur er í frumvarpinu lagt til að kveðið verði á um faglegt mat landlæknis í 27. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds er í 5. gr. frumvarpsins lagt til að hnykkt verði á því að ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga um heilbrigðisþjónustu um að leyfi ráðherra þurfi til að setja á stofn eða reka sjúkrahús og hvers konar aðra starfsemi, sem talin er vera í lækningaskyni, taki til rannsóknarstofa, þar sem fyrirhugað er að stunda lækningarannsóknir. Þá er lagt til í 6. gr. frumvarpsins að tekið verði fram í 2. mgr. 27. gr. að leita skuli álits landlæknis á því hvort fyrirhuguð stofnun sem sótt er um rekstrarleyfi fyrir, hvort sem um er að ræða sjúkrahús eða aðra starfsemi sem talin er vera í lækningaskyni, þar með taldar rannsóknastofur, uppfylli þær faglegu kröfur sem gera þarf til hennar.

Virðulegi forseti. Í ræðu minni hef ég lauslega farið yfir aðdraganda þess að ég legg fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um meinatækna og lögum um heilbrigðisþjónustu. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.