131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Meinatæknar og heilbrigðisþjónusta.

537. mál
[11:24]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Í frumvarpinu er atriði sem ég vildi fá hér nánari skýringar á hjá hæstv. ráðherra. Það segir hér í 1. gr. að aðeins megi veita þeim leyfi sem lokið hafi prófi í lífeindafræði frá háskóla hér á landi. Síðan segir í b-lið:

„Áður en leyfi er veitt samkvæmt þessari málsgrein skal leitað umsagnar Félags lífeindafræðinga og háskóla eða háskóladeildar sem menntar lífeindafræðinga.“

Ég hefði gjarnan viljað fá útlistun á því hvort hér er eingöngu verið að tala um að þetta heiti geti átt við þá sem menntast hér á landi. Eða á að skilja b-lið 1. gr. þannig að metið verði inn annað nám annars staðar frá, t.d. innan Evrópska efnahagssvæðisins?