131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Meinatæknar og heilbrigðisþjónusta.

537. mál
[11:26]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um meinatækna og lögum um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.

Eins og fram hefur komið í umræðunni er ætlunin að breyta starfsheiti meinatækna, breyta því úr „meinatæknir“ í „lífeindafræðingur“. Einnig á að breyta ákvæðum um að meinatæknar starfi ekki lengur á ábyrgð eða undir handleiðslu sérfræðinga.

Meinatæknar hafa um nokkurt skeið óskað eftir að starfsheiti þeirra verði breytt, segir hér. Ég verð að segja að mér finnst meinatæknir mun fallegra orð en lífeindafræðingur. Ég tel svo sem enga ástæðu til að breyta því en ef stéttin vill endilega breyta þessu þá er lítið við því að gera. Mér finnst samt að við eigum að halda í svona gömul orð. Ég saknaði þess alltaf þegar við breyttum hinu fallega orði „fóstra“ í „leikskólakennari“. Fóstra er ákaflega fallegt íslenskt starfsheiti og gamalt og gegnt og segir mikið um það starf sem sú starfsstétt fæst við.

Meinatæknir finnst mér líka alveg ágætis heiti sem hefur skapað sér ákveðna hefð í máli okkar. En það er sem sagt ósk stéttarinnar að breyta þessu orði og þessu heiti og taka upp heitið „lífeindafræðingur“. Þar bætist enn eitt orðið við fræðingaflóruna, þegar þetta frumvarp verður að lögum. Ég býst við að munum nú styðja þetta úr því að það er eindreginn vilji meinatæknanna að fara þessa fræðingaleið.

Ég get einnig tekið undir að það sé ástæðulaust að hafa það í lögum að meinatæknar verði að starfa á ábyrgð eða undir handleiðslu sérfræðinga. Auðvitað eru meinatæknar sérfræðingar í sínu fagi og eiga auðvitað að geta starfað sjálfstætt. Löggjafinn á ekki að stjórna því hvort þeir starfi undir öðrum eða ekki. Það verður auðvitað að ráðast af stofnunum hvernig menn haga því.

Í þessu frumvarpi er einnig komið inn á menntun meinatækna. Hingað til hefur Tækniháskóli Íslands annast menntun meinatækna en nú eru að verða breytingar á Tækniháskólanum, eins og glöggt kom fram í umræðum í þinginu í vikunni, þar sem Tækniháskóli Íslands mun sameinast Háskólanum í Reykjavík með lagabreytingu sem verið hefur til umfjöllunar. Við það mun breytast fyrirkomulagið í námi meinatækna. Af þeim sökum mun ekki lengur tiltekið sérstaklega hvaðan meinatæknar eða lífeindafræðingar, eins og þeir skulu heita eftir að frumvarpið verður að lögum, skuli hafa lokið prófi, þ.e. frá tilteknum háskóla. Frumvarpið hefur svo sem ekki stórvægilegar breytingar í för með sér þótt breytt sé tvennum lögum til að koma þeim á.

Ég á sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd þar sem við munum fjalla um málið. Við munum við kalla eftir umsögnum þeirra sem að málinu koma og heyra viðhorf þeirra til breytinganna. Eftir að hafa skoðað umsagnir munum við auðvitað taka afstöðu til þessa máls. En við 1. umr. held ég að ég hafi ekki meira um það að segja, herra forseti, en ég mun taka þátt í umfjöllun nefndarinnar um málið.