131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Sala kristfjárjarðarinnar Utanverðuness.

504. mál
[11:31]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta er flutt til að afla heimildar fyrir stjórn Utanverðunesslegats í sveitarfélaginu Skagafirði til að selja jörðina Utanverðunes til ábúanda hennar.

Jörðin Utanverðunes er kristfjárjörð en kristfjárjarðir voru hluti af fátækraframfærslu sveitarfélaga fyrr á öldum. Voru jarðirnar gefnar í því skyni að fátæklingar í viðkomandi hreppi mættu njóta afgjalds eftir þær um aldur og ævi.

Jörðin var gefin Rípurhreppi í Skagafirði með gjafabréfi, dags. 31. janúar 1838. Gjöfinni skyldi varið í þágu munaðarlausra barna í hreppnum Stofnaður var sjóðurinn Utanverðunesslegat um gjöfina og er jörðin eign sjóðsins. Afgjald vegna jarðarinnar hefur runnið til sjóðsins.

Kristfjárjarðir verða ekki seldar nema til komi sérstök lagaheimild þar sem jarðirnar eru yfirleitt eigin eign sem má líkja við sjálfseignarstofnun eða eign sjóðs eins og er í þessu tilfelli. Hefur Alþingi ávallt sett það skilyrði að söluandvirði verði varið í samræmi við fornan tilgang kristfjárjarðarinnar.

Nauðsyn á lagaheimild til sölu jarðarinnar er til komin vegna beiðni núverandi ábúanda hennar til stjórnar Utanverðunesslegats um kaup á jörðinni. Hefur ábúandi búið einn á jörðinni frá árinu 1999 og er eigandi að fasteignum og fylgifé sem á jörðinni eru. Á jörðinni er nú stundaður sauðfjárbúskapur.

Um efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til þess og athugasemda við það, en að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. félagsmálanefndar og 2. umr.