131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Sala kristfjárjarðarinnar Utanverðuness.

504. mál
[11:33]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt á hv. Alþingi undanfarna daga um eignarrétt ýmiss konar. Menn tala um að Ríkisútvarpið sé þjóðareign án þess að fara nánar út í hvað það þýðir. Hér erum við að ræða um nokkuð merkilegan eignarrétt sem eru kristfjárjarðir og kristfé, en í Íslandssögu Einars Laxness segir svo, með leyfi forseta:

„Kristfé, fé gefið Kristi til framfærslu „guðs fátækra“ eða þeim til styrktar með öðrum hætti, sem kirkjuvaldið hvatti menn þegar um miðja þjóðveldisöld til að gefa sér til sáluhjálpar eða guðsþakka, enda þurfti ekki að greiða tíund af slíkum gjöfum.“

Við erum sem sagt að fjalla hér um eign sem er eign Krists, þ.e. Jesú Krists, og menn þurfa að hafa það í huga. Nú geta verið vandræði að fá heimild til að selja slíka jörð vegna þess að eigandinn er ekki við og þess vegna tekur Alþingi sér leyfi til þess að gefa heimild til að selja þessa jörð enda reiknar maður með því að gott verð fáist fyrir jörðina og það renni þá til þess legats sem um jörðina er stofnað og arður þess verði þá notaður í upphaflegum tilgangi, að sú eign verði notuð í þeim tilgangi sem segir til framfærslu „guðs fátækra“.

Þessar jarðir voru oft á tíðum nefndar sælubú og stundum voru þær settar upp við ferjustaði til þess að auðvelda mönnum að komast til kirkju. Elsti kristfjármáldaginn er frá Bakka í Borgarfirði, (Ferjubakka), til að hjálpa mönnum að fá stuðning til að komast yfir ána. Í rauninni hefði það fé átt að renna til brúarinnar þegar hún var byggð á sínum tíma. Ekki veit ég hvort það var gert.

Þetta frumvarp er dálítið athyglisvert í ljósi umræðunnar um eignarrétt sem menn hafa talað mikið um, um sjálfseignarstofnanir, um einkaeignarrétt, um þjóðareign o.s.frv., um ríkið, um ríkiseign — sumir segja að ríkiseign sé sama og eign þjóðarinnar, sem ég er alfarið á móti vegna þess að ríkið er jú lögpersóna, það er ákveðinn aðili í þjóðfélaginu — og hér erum við að fjalla um eignarrétt þar sem fé hefur verið gefið Kristi og hann á.