131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[11:55]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þó að hugsanlegt sé að tiltekin lög sem hv. þingmaður hefur stutt brjóti í bága við stjórnarskrána kemur það ekki í veg fyrir að hv. þingmaður hafi þessa skoðun á öðrum lögum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það.

Munurinn á þessu frumvarpi hv. þingmanns og hins vegar fjölmiðlalögunum sem samþykkt voru liggur hins vegar í því að þá lá fyrir rökstutt álit margra, raunar helstu vísindamanna á sviði stjórnlaga um að mörg ákvæði þess frumvarps sem varð að lögum brytu í bága við ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar. Hv. þingmanni þótti það ekki tiltökumál. Hann skautaði yfir það sem ekkert væri þó að lægju fyrir rökstuddar greinargerðir þessara manna.

Í þessu tilviki liggur nánast ekkert fyrir, nema jú fyrir liggur þokkalega rökstutt álit hv. þingmanns en það eru engir sérstakir fræðimenn sem hafa veitt þessu stuðning sinn. Félagsdómur hefur alveg klárt og kvitt sagt að þetta tiltekna ákvæði um félagafrelsi sé ekki brotið. Raunar er líka tekið fram í greinargerðinni að Alþýðusamband Íslands hafi eftir stjórnarskrárbreytinguna 1995 gert sérstakt átak til að koma í veg fyrir að það sé aðildarskylda í lögum félaganna sem tilheyra samtökunum. Það eru vissulega málsbætur í þessu. Reyndar hefur verið deilt um hvort forgangsréttarákvæðið sem kemur fram í ýmsum kjarasamningum standist ákveðin ákvæði stjórnarskrárinnar, en það hafa engar nauðir rekið einn eða neinn til þess að láta á þetta reyna.

Spurning mín til þingmannsins er því: Ef málið er svona grafalvarlegt að verið sé að brjóta mikinn rétt á fólki, hvernig stendur á því að aldrei hefur verið látið á það reyna fyrir Hæstarétti?