131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:12]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að félögum mínum í BSRB líði bara alls ekkert illa, enda reyni ég að viðurkenna og virða að það eru mismunandi pólitískar skoðanir innan samtakanna. Við sameinumst hins vegar um tiltekna þætti sem snúa að réttindum launafólks og lýðræði í samfélaginu og um það er fullkomin eining á meðal fólks, líka fólks úr flokki hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Varðandi það að ég hafi litla trú á eigin samtökum og eigin starfi, ég held að það hafi ekkert með starf mitt að gera. Ég held að við mundum vera í svipuðum farvegi og Norðurlandaþjóðirnar með aðild að stéttarfélögum ef við breyttum þessum reglum, en þar er aðildin 80% eða þar um bil.

Ég horfi hins vegar á málið með langtímaþróun í huga. Ég horfi til þess sem er að gerast í Evrópu þar sem aðild að verkalýðshreyfingunni hefur farið hríðfallandi á undanförnum árum, enda hafa mörg ríki þurft að búa við stjórnvöld sem hafa verið mjög andvíg verkalýðshreyfingunni og gert allt sem í þeirra valdi hefur staðið til að koma fólki út úr hreyfingunni. Þetta hefur verið sérstaklega erfitt á atvinnuleysistímum því þá hafa verið brögð að því að atvinnurekandinn hafi stillt hinum atvinnulausa upp við vegg og sagt: Ég skal ráða þig í vinnu að því tilskildu að þú standir utan verkalýðsfélaga. Þess vegna getur skylduaðildin verið trygging fyrir launamanninn að þessu leyti. Þess vegna tel ég þetta vera enn eina ástæðuna fyrir því að halda því fyrirkomulagi sem við búum við.