131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:14]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo til að ég þekki opinberan starfsmann sem er meira að segja meiri sjálfstæðismaður en ég og honum líður oft illa yfir því sem básúnað er í hans nafni. „Stjórn BSRB ályktar“, o.s.frv. Það er ekki alltaf í hans anda.

Mikið af þeim réttindum sem verkalýðshreyfingin hefur sem betur fer barist fyrir á undanfarinni öld eru komin í lög. Fyrir Alþingi liggur lagafrumvarp um lágmarkslaun sem búið er að flytja hér ár eftir ár frá einum þingmanni Samfylkingarinnar. Þegar það verður komið, hvað er þá eftir?

Ég held að verkalýðshreyfingin hafi mjög mikið hlutverk. Ég á mjög gott samstarf við verkalýðshreyfinguna um ýmis mál sem eru sameiginleg hugðarefni mín og verkalýðshreyfingarinnar, t.d. velferðarkerfið. En það að skylda menn með lögum til að borga skatt til BSRB veldur stöðnun. Það gerir verkalýðshreyfinguna að stofnunum og það er henni ekki í hag, ekki frekar en þjóðkirkjunni sem er í tengslum við ríkið. Menn sitja á lárviðarsveigunum alla daga og fá bara tekjurnar inn sem skatt, 1% af launum allra opinberra starfsmanna. Það er nú aldeilis huggulegur skattur og menn geta aldeilis hvílt sig á lárviðarlaufunum og dundað við eitthvað allt annað en að gæta hagsmuna félaga sinna sem þeir yrðu að gera ef ekki væri skylduaðild.