131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:18]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að flytja þetta frumvarp hér á þingi um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það er frumvarp um rétt manna til þess að standa utan verkalýðsfélags eða stéttarfélags. Eins og fram hefur komið þá er þetta frumvarp ekki flutt nú í fyrsta skipti. Á síðasta þingi var ég einn flutningsmanna þessa frumvarps en er það ekki lengur af einhverjum ástæðum. En það breytir því ekki að ég styð það sem fram kemur í frumvarpinu og þá meginhugsun sem þar er lýst.

Stéttarfélögin eru náttúrlega dálítið sérstakir klúbbar. Þau færa stjórnendum félaganna gríðarlega mikil völd í skjóli m.a. skylduaðildarinnar og greiðsluskyldunnar sem launþegum er að lögum gert að uppfylla. Þessum völdum er beitt m.a. til þess að launþegar geti haft með sér samráð. Mönnum hefur á síðustu vikum og missirum kannski verið dálítið umhugað um samráð ýmiss konar og séð ýmislegt samráði til foráttu. Ég held að það megi halda því fram að samráð launþega á vinnumarkaði sé nú eitthvert umfangsmesta samráð sem átt hefur sér stað á íslenskum markaði. En málunum er nú venjulega stillt upp með öðrum hætti. Það er allt í lagi að nefna þetta í þessu sambandi.

Ég er almennt þeirrar skoðunar, og þess vegna kem ég hér upp til þess að leggja orð í belg, að ég er í prinsippinu á móti því að menn séu skyldaðir til aðildar að félögum. Það skiptir engu máli hvort um er að ræða stéttarfélög eða einhvers konar annan félagsskap. Ég er þeirrar skoðunar að vilji menn standa utan félags þá eigi þeir að hafa frelsi til þess, menn eigi að fá að ráða því sjálfir hvort þeir eru í félaginu eða ekki. Menn eiga að fá að ráða því sjálfir, svo við tölum nú bara um stéttarfélögin, hvort þeir vilji njóta þeirra kjaralegu réttinda sem stéttarfélögin vilja tryggja þeim eða ekki, þ.e. hafi leyfi til þess að semja sjálfir um kaup sitt og kjör á markaði ef þeim líkar t.d. ekki sú kjarastefna sem stjórn viðkomandi stéttarfélags rekur og telja sig geta náð fram betri samningum upp á eigin spýtur en í gegnum þetta tiltekna stéttarfélag.

Ég tel að menn eigi líka að fá að ráða því hvort þeir vilji njóta einhverra annarra réttinda, t.d. aðgangs að sumarbústöðum sem sum þessi félög veita sínum félögum, eða annarrar þjónustu sem þeir þurfa náttúrlega að borga fyrir og kæra sig kannski ekki um að gera, en þurfa engu að síður að gera það í núverandi lagaumhverfi. Auðvitað eiga menn að hafa rétt til þess að ákveða sjálfir hvort þeir eigi aðild að slíku félagi eða ekki.

Ég mótmæli því að í þessum sjónarmiðum sem ég er hér að lýsa felist einhver öfgafrjálshyggja. Er það öfgafrjálshyggja að vilja leyfa einstaklingum að ákveða sjálfir hvort þeir tilheyri tilteknu félagi eða ekki? Er það öfgafrjálshyggja að heimila mönnum að kjósa að standa utan einhvers félagsskapar sem þeir hafa engan áhuga á að tilheyra, hvað þá ef slík aðild kostar þennan tiltekna aðila drjúgan skilding að þurfa að vera partur af klúbbnum sem hann hefur engan áhuga á að taka þátt í? Þetta sjónarmið lýsir engri öfgafrjálshyggju. Þetta eru bara klassísk mannréttindi sem hér er verið að lýsa, sem hafa verið viðurkennd ekki bara í okkar stjórnarskrá heldur í stjórnarskrám allra a.m.k. vestrænna ríkja, þ.e. réttur manna til þess að standa utan félaga hvort sem það eru stéttarfélög eða önnur félög.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er lagt til að 2. mgr. 7. gr. núgildandi laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna verði felld brott. Það ákvæði er dálítið sérstakt. Það segir að starfsmaður sem lögin taka til og er eigi innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum greiði gjald til þess stéttarfélags sem hann ætti að tilheyra jafnt því sem honum bæri að greiða ef hann væri í félaginu. Þetta er dálítið sérstök grein. Hún felur það í rauninni í sér að viðkomandi launþega er heimilt að standa utan félagsins í orði kveðnu. En það hvílir á honum greiðsluskylda. Ef hann vill standa utan félagsins þá verður hann samt sem áður að greiða félagsgjald í félagið. Þetta er, eins og segir í frumvarpinu, ekkert annað en dulbúin skylda, dulbúin skylda að tilteknu félagi. Mér finnst hv. þm. Ögmundur Jónasson vera heiðarlegur hvað það varðar að það er bara hans skilningur og honum finnst eðlilegt að slík skylda sé til staðar. En ég er honum ekki sammála.

Ýmsir sem hafa komið að málefnum launþega og verkalýðsfélaganna á síðustu árum hafa lýst annarri skoðun sinni á þessu máli. Ég minnist þess t.d. að á árunum 1994 og 1995, þegar ég var í háskólanum, en endurskoðun stjórnarskrárinnar átti sér stað þá, var reyndar umræða um hvort heimila ætti stúdentum að standa utan félagsskapar sem heitir stúdentaráð. Þá héldu verkalýðsforkólfar eins og Lára V. Júlíusdóttir og Benedikt Davíðsson því fram í þeirri rökræðu sem þá átti sér stað að í raun væri ekki félagsskylda eða aðildarskylda að stéttarfélögum, það væri bara greiðsluskylda. En á þessu er auðvitað enginn munur. Auðvitað er þetta tóm tjara. Þetta sjónarmið sem þá var lýst kemur fram í bók Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns sem heitir Stéttarfélög og vinnudeilur og er frá árinu 1994. Þar fjallar hún um rétt manna til þess að standa utan félaga. Þar er sagt að samkvæmt íslenskum lögum, með leyfi forseta: „... er launafólk ekki skyldað til þess að vera í stéttarfélagi ...“ Hins vegar er fjallað um hina eðlilegu greiðsluskyldu þeirra sem vilja standa utan félaga.

Það er meira að segja gengið svo langt — mér finnst reyndar mjög ósmekklegt að halda því fram — að greiðsluskyldan feli í rauninni í sér hvatningu til manna til þess að vera í félagi. Ég meina: Hvers konar málflutningur er þetta? Við erum ekkert að tala um neitt annað en þvingaða félagaaðild fólks að félögum, í þessu tilviki stéttarfélagi. Þannig er það og því kerfi er ég ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að hafa rétt til þess að standa utan félaga, hvort sem það er stéttarfélag opinberra starfsmanna, knattspyrnufélag eða hvaða félag sem er, stjórnmálaflokkur. Þetta eru allt félög.

Ég tek undir það sem kemur fram í greinargerðinni að auðvitað hlýtur skylduaðild eins og þessi í hugum manna, a.m.k. í mínum huga, að stríða gegn félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Að minnsta kosti heggur hún ansi nærri því að brjóta gegn því ákvæði. Það er furðulegt að jafnræði manna sé brotið með þeim hætti sem löggjöfin kveður á um og gerð er grein fyrir í greinargerð. Það er alveg sama hvað menn segja. Auðvitað er greiðsluskyldan sem er lögbundin ekkert annað en skattheimta gagnvart launþegum. Þeir komast ekkert undan því að greiða í þetta félag hvort sem þeim líkar betur eða verr, rétt eins og sá sem kaupir sér sjónvarpstæki kemst ekkert hjá því að greiða afnotagjöld til Ríkissjónvarpsins eða Ríkisútvarpsins. Þetta er skattur og ekkert annað og við skulum bara kalla hann skatt.

Mér finnst síðan athyglisvert það sem fram kemur í greinargerðinni að þar er vísað til ritgerðar, kandídatsritgerðar í lögfræði frá árinu 1992, Elínar Blöndal lögfræðings sem ég man nú ekki hvar starfar í svipinn þessa dagana. Hún kemst að því í ritgerð sinni að 7. gr. laganna um kjarasamninga opinberra starfsmanna samrýmist ekki ákvæði 2. gr. ILO nr. 87, Alþjóðavinnumálastofnunar. Þetta ættu menn kannski að skoða. Erum við Íslendingar með þessu ákvæði sem hér er lagt til að verði fellt brott að brjóta gegn tilmælum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eða tilskipun?

Virðulegi forseti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að menn eigi að hafa fullan rétt til þess að standa utan stéttarfélaga og standa utan þeirra félaga sem þeir vilja ekki eiga aðild að. En ég velti því fyrir mér hvernig hv. þingmenn eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson lítur á hugsanlega millileið eða millileik í stöðunni?

Er nauðsynlegt að skylda alla sem undir lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna heyra til fullrar aðildar að félaginu? Kæmi til greina að þeir yrðu skyldaðir til aðildarinnar að félaginu að því marki sem lýtur að þessu stóra máli sem hv. þingmaður lýsti, þ.e. kjarasamningsgerð á vinnumarkaði, en séu frjálsir undan öðrum þáttum, annarri starfsemi eða þjónustu sem félagið stendur fyrir?

Ég lýsti því áðan t.d. að stéttarfélögin bjóða félögum sínum upp á að fara í sumarbústaði sem eru í eigu félaganna og þar með þeirra sjálfra og þeir hafa kostað til. Nú er það svo að þessi uppskipting eða aðgreining er gerð hvað aðrar starfsstéttir varðar. Ekki er langt síðan samþykkt voru lög um regluverk hvað varðar fasteignasala. Ég greiddi reyndar atkvæði gegn skylduaðild löggiltra fasteignasala að félagi þeirra en engu að síður varð niðurstaðan sú að fasteignasalar eru í dag skyldaðir til þess að eiga aðild að Félagi fasteignasala en þó einungis að hluta þeirrar starfsemi sem félagið stendur fyrir. Það er frjáls aðild að félagsdeild félagsins, þ.e. þeirri deild sem rekur sumarbústaði og heldur fundi o.s.frv. Það sama má segja um t.d. Lögmannafélag Íslands. Þar eru menn skyldaðir til að greiða félagsgjöld vegna tiltekinnar starfsemi félagsins en eru frjálsir að því að eiga aðild að félagsdeildinni.

Ég velti því fyrir mér hvernig hv. þm. Ögmundi Jónassyni, formanni BSRB, líst á þessar hugmyndir, hvort við getum tekið a.m.k. eitt lítið skref til baka, eða er það algjört skilyrði að menn séu eins múlbundnir og núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir?

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vildi koma þessum sjónarmiðum mínum á framfæri og lýsa yfir stuðningi við málið og þá hugsun sem þar kemur fram.