131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:34]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka það skýrt fram áður en lengra er haldið að þegar ég fjallaði um samráð, sem hv. þingmaður kallaði líka samvinnu, samráð launþega gagnvart atvinnurekendum, þá var ég ekki að líkja því við samráð sem hefur kannski helst verið til umræðu á síðustu vikum og missirum og varða tiltekin félög hér í þjóðfélaginu, en mér fannst engu að síður rétt að varpa því fram. Auðvitað er þetta samráð. Það er alveg sama hvort menn kalla það samvinnu eða nota einhver önnur orð, samráð er það.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson talar um að þeir sem standi fyrir utan verði að taka afleiðingum gjörða sinna. Ég er alveg sammála því. Það er alveg skýrt í mínum huga að þeir sem vilja standa utan félaga verða að taka afleiðingum þess. Þeir mega búast við því að kjör þeirra verði hugsanlega lakari en hinna sem mynda með sér félag til að berjast sameiginlega fyrir hagsmunum sínum.

Ég geri mér líka grein fyrir því að ef til frjálsrar aðildar kemur kunni hugsanlega að koma upp vandamál, svokallað „free-rider“ vandamál. Það kann að gerast að einhverjir flækist með og græði á samráði hinna sem hafa ákveðið að mynda með sér einhvern tiltekinn félagsskap. Mér finnst þau rök ekki vega þyngra en rökin um rétt manna til að standa utan félaga sem þeir vilja ekki vera hluti af. Það finnst mér vera lykilatriði.

Ég spyr hv. þingmann enn og aftur: Hvernig hugnast honum hugmyndir um að hluti af starfsemi þessara félaga verði gerður félagsskyldur (Forseti hringir.) en félagslegi hlutinn ekki?