131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:41]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Barnsleg trú og einlægni þess hv. þingmanns sem hér talaði á gæði atvinnurekandans og mjög einlægur misskilningur á eðli þeirra lögmála sem fjármagnið gengur eftir, kreisti fram hjá mér ákveðin hughrif. Þennan ágætlega upplýsta hv. þingmann sem hélt hér að mörgu leyti snjalla ræðu virtist hins vegar skorta grundvallarþekkingu á sögu síðustu aldar. Hún var saga átaka af því tagi sem hv. þingmaður sagði að gætu ekki gerst. Hv. þingmaður sagði: Líta andstæðingar þessa frumvarps svo á að atvinnurekendur séu einhver skrímsli? Nei, við gerum það ekki en saga síðustu aldar, sérstaklega fyrri parts síðustu aldar, sýndi að þá braust fram aftur og aftur viðleitnin til þess að þvinga verkafólk frá því að taka þátt í stéttarfélögum, frá því að taka þátt með samræmdum aðgerðum í að bæta sín kjör. Þetta er það sem hv. þingmaður sagði að gæti ekki gerst í byrjun 21. aldar.

Frú forseti. Hvað er að gerast þessa dagana? Hvað er að gerast á almenna vinnumarkaðnum?

Á allra síðustu dögum höfum við séð það gerast að íslenskur verktaki við Kárahnjúka hefur sagt upp fjórum íslenskum starfsmönnum sem unnu við það að aka bifreiðum og í staðinn réð hann fjóra erlenda starfsmenn. Þeir höfðu ekki atvinnuleyfi. Þeir höfðu ekki tilskilin réttindi. Þeir voru ráðnir fyrir laun sem voru svo lág að allir fjórir fá greitt samanlagt minna en einn íslenski starfsmaðurinn. Hvar eru þá réttindi fólks til að taka höndum saman og hrinda frá sér ásókn sem þessari? Það verður að vera alveg ljóst, frú forseti, að íslenskur verkalýður, íslenskt verkafólk, hafi möguleika til að bindast samtökum þegar slík aðstaða kemur upp. Hún er að koma upp.

Hvað mundi gerast, frú forseti, ef þjónustutilskipun Evrópusambandsins yrði samþykkt í því formi sem hún er núna? Að vísu eru ákvæði þar inni sem undanþiggja tiltekna opinbera þjónustu. Það er hins vegar alveg ljóst, eins og ég skil þá þjónustutilskipun, að það er verið að ryðja leiðina, brjóta brautina fyrir starfsmannaleigur sem mundu leigja vinnuafl innan opinbera geirans.

Þá erum við komin að því grundvallaratriði sem við erum að ræða um sem eru stéttarfélögin og styrkur stéttarfélaganna til þess að verja hagsmuni félagsmanna sinna. Það er það sem málið snýst um. Frelsið er margrætt hugtak. Ég hef ákveðna samúð og skilning á því hugarfari sem liggur að baki máli hv. þingmanns þegar hann segir: Er það ekki í þágu frelsisins að leyfa fólki að standa utan stéttarfélaga? Jú, það er í þágu frelsisins og þess vegna er það heimilað í dag.

Hann gengur lengra og spyr: Er það ekki líka í þágu frelsisins að leyfa fólki að greiða ekkert endurgjald fyrir þá lágmarksþjónustu sem stéttarfélögin hafa veitt? Nei, segi ég. Það er ekki í þágu frelsisins vegna þess að ég lít á frelsið sem margbrotið hugtak sem hefur margar hliðar og mörg andlit.

Við þurfum líka að sinna því frelsi sem fólk á að hafa til að geta lifað með reisn. Sama við hvaða aðstæður það býr og sama hvað hendir það á lífsleiðinni, það verður að hafa frelsi til að lifa með reisn, lifa mannsæmandi lífi.

Það sem verkalýðshreyfingin og samtök launafólks hafa gert er að skapa umhverfi sem gerir þetta mögulegt. Ef ekki hefði verið samtakamáttur verkalýðshreyfingarinnar og launafólks væri ekki þetta umhverfi til í dag sem gerir fólki mögulegt að lifa með reisn. Margvísleg félagsleg réttindi hafa einungis orðið að veruleika vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir því. Síðan komum við hin í kjölfarið. Ungir menn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ganga að þessu sem gefnu en þetta er ekki gefið. Þetta var ekki gefið. Þennan rétt þurfti að skapa og taka með átökum. Það sýnir saga síðustu aldar.

Vera kann að hv. þingmenn séu þeirrar skoðunar að í þeirri friðsamlegu sambúð sem ríkir í samfélögum Vesturlanda í dag sé þetta orðið óþarft og úrelt. Fyrir nokkrum árum hefði jafnvel maður eins og ég hneigst til þess að taka undir það, en við höfum séð þróunina allra síðustu ár. Hún hefur verið með miklu harðara og harðsvíraðra móti hvað varðar átök um réttindi en nokkur maður átti von á. Það sem er að gerast á vinnumarkaði í dag, almenna vinnumarkaðnum, er líklegt til þess að flytjast inn á opinbera vinnumarkaðinn ef einhverjar glufur opnast. Þá fer að sneyðast um það frelsi sem ég ræddi hér áðan, þ.e. frelsi til að lifa mannsæmandi lífi, til að lifa við ákveðin réttindi, frelsinu til að lifa með reisn. Frelsið er ekki hægt að túlka með þeim þrönga skilningi sem margir hægri menn hafa jafnan gert. Frelsið er hugtak sem verkalýðshreyfingin sjálf notaði mjög gjarnan fyrir aldamótin 1900. Þá var verkalýðshreyfingin að tala um að beita samtakamætti sínum til að búa til frelsi fyrir félagsmenn sína sem þá lifðu við margvíslega neyð og örbirgð, en þeir túlkuðu þetta alltaf sem frelsi einstaklingsins. Síðar hafa ýmiss konar hægri menn beitt þeirri túlkun á frelsishugtakinu með þeim hætti að hún hefur orðið miklu þrengri og hún hefur ekki horft til þessa félagslega frelsis sem skiptir hvern einasta einstakling svo miklu máli.

Þess vegna er ég á móti þessu frumvarpi hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hv. flutningsmaður reifar þetta finnst mér undan þrengra sjónarhorni en félagi hans hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Hv. þm. Pétur Blöndal telur að það þurfi að koma þessu í burtu vegna þess að þetta stangist á við ákveðin ákvæði stjórnarskrárinnar. Mér finnast þau rök sem hv. þingmaður hefur fært í greinargerð sinni þar sem hann lýsir því hvernig Félagsdómur frá 1998 hefur beinlínis sýnt fram á það að þessi grein sem hann vill fella brott úr lögunum stangist ekki á við ákvæði um félagafrelsið.

Hv. þingmaður hefur sagt að vegna þess að Hæstiréttur hefur ekki um málið fjallað sé ekkert hægt að segja um það, eða þ.e. þá hafi Félagsdómur ekkert sérstakt gildi. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tekur þetta hins vegar undan hinu almenna sjónarhorni frelsisins. Mér líkar í sjálfu sér sú umræða, en mér finnst hann taka þetta allt of þröngt.

Ég tók ekki eftir því að hv. þingmaður væri að reifa þetta vegna þess að hann teldi að þetta væri brot á þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar, a.m.k. færði hv. þingmaður ekki mikil og sterk rök fyrir því. Mér fannst líka að hv. þingmaður hrinti í reynd þeim rökum þegar hann kom sjálfur fram með þá hugmynd að farin væri einhvers konar millileið, þ.e. að menn hefðu ekki fulla aðild að stéttarfélögum, en greiddu gjald fyrir einhvers konar lágmarksþjónustu. Mér skildist helst að það sem hv. þingmaður vildi fría menn undan væri að taka þátt í kostnaði sem verkalýðshreyfingin hugsanlega bakar sér með því að búa til orlofsbústaði fyrir sitt fólk. Það finnst mér nú ekki vera aðalatriði þessa máls.

Aðalatriðið er þetta:

Er afnám þessa ákvæðis í reynd skref í áttina að meira frelsi? Hv. þingmaður færði rök fyrir því með því að beita þröngum skilningi á frelsishugtakinu. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að afnám þessa ákvæðis, sérstaklega við þær aðstæður sem eru að skapast núna í samfélögum Vesturlanda, gæti leitt til þess að frelsi einstaklingsins, frelsi til að lifa með reisn, mundi minnka, það mundi skerðast.

Það er ekki síst af þeim ástæðum sem ég geld varhuga við þessu. Mér finnst hins vegar að hv. þingmaður, kannski án þess að hann geri sér grein fyrir því, hafi verið að láta glitta í ákveðinn skilning á því að það komi í reynd endurgjald af hálfu verkalýðshreyfingarinnar fyrir það gjald sem almennir félagsmenn greiða til hennar. Þess vegna var hann að reifa þá hugmynd að hægt væri að fara millileiðina sem fælist í því að þá kæmi lágmarksþjónusta gegn lágmarksgjaldi. Ég hafna því hins vegar og geri það með þeim rökum að ef sett yrði upp einhvers konar tveggja þrepa leið í áttina að þátttöku í verkalýðshreyfingunni, þá sýnir reynslan að samtakamáttur atvinnurekendanna og þrýstingurinn sem þeir geta beitt mun að sjálfsögðu í tímans rás og fyrr en seinna leiða til þess að mönnum yrði þrýst í þessa millileið.

Frú forseti. Einungis sú hugsun sem kemur fram hjá hv. þingmanni. varðandi millileiðina sýnir það alveg glöggt að hann er í hjarta sínu þeirrar skoðunar að verkalýðshreyfingin sé að inna af höndum ákveðna þjónustu, einnig fyrir þá sem stæðu utan verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar með formlegum hætti. Það er auðvitað alveg hárrétt. Hvað sem menn segja um þjónustu verkalýðsfélaganna gagnvart félagsmönnum sínum, þá eru það ákveðin lágmarksréttindi sem hún hefur samið um og hún hefur barist fyrir og eru í dag hluti af því sem við getum kallað sjálfsögð réttindi allra aðildarfélaga innan verkalýðshreyfingarinnar. Þetta kostar. Það kostar að vinna félagsmönnum slík réttindi inn. Það kostar átök. Það kostar fjármagn. Og þess vegna er það réttlætanlegt að menn greiði þetta gjald, jafnvel þótt þeir standi með formlegum hætti utan verkalýðsfélaganna sjálfra.

Ég skil vel að þeir sem eru aldir upp í hinum harða skóla frjálshyggjunnar, eru agaðir þar við allt öðruvísi frelsishugtak en við sem höfum verið á vinstri kanti stjórnmálanna, finnist sem þarna sé verið að sneiða utan af frelsinu, utan af svigrúmi einstaklingsins til að taka ákvarðanir um sig sjálfa. Ég er einfaldlega að halda því fram að þeir sem komast að þeirri niðurstöðu geri það vegna þess að þeir skilja frelsishugtakið allt of þröngt. Menn verða líka að hugsa til þess að fólk þarf að hafa frelsi til að lifa með reisn. Það lifir ekki með reisn nema því séu tryggð ákveðin lágmarksréttindi. Þau réttindi eru til staðar í samfélaginu í dag. Hver hefur tryggt þau? Samtök launamanna! Verkalýðshreyfingin!

Hvað er að gerast í samfélaginu í dag? Við sjáum að verið er að naga utan af og undan þessum réttindum sem við töldum sjálfsögð.

Ég hóf þessa ræðu, frú forseti, á því að rifja það upp hvað er að gerast við Kárahnjúka í dag. Þá er ég ekki að tala um hið ítalska verktakafyrirtæki heldur líka íslenskt verktakafyrirtæki sem á síðustu dögum hefur sagt upp fjórum starfsmönnum í kjördæmi hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, og ráðið í snarhasti og svo að segja samdægurs fjóra erlenda starfsmenn á launum sem eru svo miklu lægri en þau laun sem íslensku starfsmennirnir nutu, að samanlögð laun þessara fjögurra erlendu starfsmanna eru minni en laun eins. Þetta eykur samkeppnishæfni fyrirtækisins. Það er engum vafa blandið. Ef menn komast upp með þetta mun það þegar til lengdar lætur og fyrr en seinna rýra samkeppnishæfni þeirra fyrirtækja sem ekki geta af siðferðislegum eða öðrum ástæðum notfært sér þetta sama. Til lengdar mun þetta þess vegna rýra samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og íslensks atvinnulífs og þar með íslensks samfélags. En það sem skiptir mestu er að það rýrir samkeppnishæfni íslenska vinnuaflsins sem getur ekki keppt við þetta. Það er mergurinn málsins.

Þá komum við að þeim skilningi frelsisins sem ég legg mest upp úr, þ.e. frelsi mannsins til að lifa við mannsæmandi kjör, til að lifa við viðunandi aðstæður. Þetta sem hér er verið að leggja til gæti hrundið af stað þróun sem dregur úr því. Hv. þingmenn gætu komið og sagt: Þetta er þróun sem er að gerast á almenna vinnumarkaðnum. Ég óttast því miður að hún gæti rutt sér til rúms líka á þeim vinnumarkaði sem helgast af samskiptum opinberra starfsmanna og ríkisins.

Hér í gær voru t.d. umræður um þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Það kom að vísu fram hjá hæstv. utanríkisráðherra að það er líklegt vegna andstöðu ESB-ríkja að henni verði í töluverðum atriðum breytt, en ef það gerist ekki þá yrði ákaflega erfitt fyrir okkur að hamla gegn henni og það gæti leitt til þess að starfsmannaleigur ryddu sér líka til rúms í opinbera geiranum. Þá er aftur að koma upp þessi staða og þá þurfa samtök launamanna að hafa sterka stöðu til þess að geta varist slíkum árásum á réttindi starfsmanna sinna. Þetta frumvarp mundi draga úr þeim möguleikum fyrr en seinna.