131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[12:59]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég efa ekki að þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa talað eru ekki andstæðir því að fólk hafi möguleika til að lifa með reisn. Ég held hins vegar að þeir hugsi þetta mál allt of skammt. Hv. þingmaður segir að það þurfi ekki að lögbinda samtök og lögskylda menn til að vera í samtökum launamanna til að hægt sé að berjast gegn þeirri þróun sem ég var að lýsa áðan. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni en ég er þeirrar skoðunar að slík lögskylda sé ekki fyrir hendi.

Mér virtist það koma fram í máli hv. þingmanns, reyndar líka í andsvarinu áðan, að hann telji réttmætt að gera ráð fyrir því að launamenn greiði ákveðið gjald fyrir þjónustu verkalýðsfélaganna. Það hlýtur að vera fyrir þá lágmarksþjónustu sem felst í að ávinna þeim og verja nauðsynleg lágmarksréttindi. Þar með er hv. þingmaður kominn að allt annarri niðurstöðu en hv. þm. Pétur H. Blöndal, félagi hans, sem telur að ekki eigi að vera um neitt slíkt endurgjald að ræða. Hann telur raunar að þar sé um hreinan skatt að ræða. Ég get ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo að hann sé á allt annarri skoðun. Mér finnst það auðvitað skipta miklu máli í þessari röksemdafærslu.

Ég sé að hv. þingmaður hristir höfuðið — ég heyrði það ekki, ég sá það. Ég hlýt að álykta að hann sé ekki sammála þeirri ályktun sem ég dró af máli hans. En þá spyr ég hv. þingmann.: Ef hann er sammála því að leggja til millileið þar sem menn geta greitt, eins og mér skildist á hv. þingmanni, ákveðið lágmarksgjald, þá er það væntanlega til að fá ákveðna lágmarksþjónustu, en er hann þá ekki kominn á þá skoðun og í reynd að leggja til ákveðna lögbundna greiðsluskyldu, bara með öðrum hætti en hefur (Forseti hringir.) tíðkast?