131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[13:04]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að hlusta á þessa umræðu og hv. þm. Össur Skarphéðinsson er, eins og menn þekkja, vígfimur í ræðustólnum og tekst að gera tiltölulega einfalt mál mjög flókið og allt í góðu með það.

Ég vildi nota tækifærið, af því þetta snýst eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði rétt áðan í svari við andsvari, bara um prinsipp. Það er bara svo einfalt. Ef við sleppum öllum skemmtilegum söguskýringum sem eru að sjálfsögðu góðar, ég hef gaman af slíku og gaman að bera ýmsa hluti saman, þá vildi ég bara spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson einnar spurningar. Ég vona að hann noti tækifærið, ég held hann fái til þess tvær mínútur, virðulegi forseti, til að svara því skýrt og leyfi okkur seinna að njóta söguskýringanna með því að fara út um víðan völl.

Er hv. þm. Össur Skarphéðinsson fylgjandi eða andvígur félagafrelsi? Er það svo, svo það sé á hreinu: Styður hv. þm. Össur Skarphéðinsson að fólk geti valið sér félag? Styður hv. þingmaður að það sé frelsi hvers og eins að meta það hvort hann eigi að vera í félagi eða ekki?

Þetta er mjög einföld spurning og ég vonast til þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson noti tækifærið í þessu tveggja mínútna andsvari og svari því skýrt: Er hv. þingmaður fylgjandi félagafrelsinu eða ekki?