131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[13:09]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan hóf verkalýðshreyfingin til vegs og virðingar hugtakið „frelsi einstaklingsins“. Það var síðan skrumskælt af ýmsum mönnum sem á eftir komu og hafa verið allt of tjóðraðir við það sem við köllum í dag grímulausa frjálshyggju. Það voru einnig sömu menn, ármenn verkalýðshreyfingarinnar, sem töluðu um að öllum réttindum fylgdu skyldur og skyldur ættu alltaf að leiða til réttinda. Svo gildir um þetta. Þarna er ákveðin greiðsluskylda, þótt ég telji að um fullkomið félagafrelsi sé að ræða. Ég er að því leyti svolítið ósammála tveimur hv. þingmönnum sem hafa talað hér í dag.

Ég tel alveg ljóst að þessu, sem ég kalla ekki helsi en við getum sagt að sé ákveðin kvöð, fylgja veruleg réttindi. Þau réttindi eru þess eðlis að ég held að enginn þegn í íslensku samfélagi í dag vildi án þeirra vera.