131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[13:14]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Venjulegur opinber starfsmaður ræður sig til starfa og treystir því að það sem gert er sé í samræmi við lög, reglur og stjórnarskrá. Hann setur ekki út á að honum sé gert að greiða í lífeyrissjóð. Hann setur ekki svo mikið út á að honum sé gert að greiða í stéttarfélag. Hann er ekki að setja út að það sé borgað í orlofsheimilasjóð eða sjúkrasjóð af launum hans. Hann gagnrýnir þetta ekki vegna þess að hann er ekki að velta því fyrir sér alla daga hvort það sé félagaskylda eða ekki, hann treystir því að þetta sé í samræmi við stjórnarskrána. Hins vegar væri mjög skemmtilegt að fá einhvern opinberan starfsmann til að fara í prófmál út af þessu, neita að borga félagsgjald til stéttarfélags og láta reyna á það. Ég reyndi það einu sinni og ég komst upp með það. Menn gerðu ekkert í því vegna þess að þeir vissu kannski að málið var ekki eins skothelt og gefið hefur verið í skyn.