131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:44]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég hygg að ekki sé lengur um það deilt að mikið er í húfi með að bregðast við því mati sem menn leggja á þróun hitastigs á jörðinni á næstu öld, næstu 100 árum, í ljósi þeirrar iðnvæðingar á síðustu öld og jafnvel lengra aftur. Menn telja nokkuð víst að ef fram fer sem horfir sé mikil vá fyrir dyrum. Við þær aðstæður getur enginn setið hjá og látið eins og málið komi honum ekki við. Þetta er í alþjóðlegu samhengi og enginn einn getur dregið sig út úr í þeim efnum. Ég tel því eðlilegt að menn bregðist við þeim nýju upplýsingum sem fram hafa komið og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði að umtalsefni þessarar utandagskrárumræðu.

Ég er sammála því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að það er eðlilegt að byrja á að rannsaka málið frekar vegna þess að það er stórt. Hvort sem alþjóðlegar skuldbindingar leiða til þess að menn eigi að breyta því hvernig menn færa bókhald í þessum efnum eða ekki þá er eðlilegt að við tökum upplýsingarnar alvarlega og bregðumst við þeim sjálfstætt, jafnvel þó að ekki sé gerð krafa um það í tengslum við Kyoto-bókunina. Ég er hvatamaður þess, herra forseti, að menn taki rösklega til hendinni í þessum efnum og endurheimti votlendi sem í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið virðist rökrétt aðgerð, enda eru aðstæður breyttar hér á landi. Þau landgæði sem við þurftum helst á að halda á síðustu öld voru ræktað land en nú hefur málið breyst mikið frá þeim tíma, m.a. í ljósi mikillar tækniþróunar. Ef til vill má segja að votlendi sé þau landgæði sem við viljum frekar hafa um þessar mundir.