131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:49]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær samfögnuðum við gildistöku Kyoto-samningsins með öðrum ábyrgum þjóðum. Því er ánægjulegt að við skulum í dag ræða um mál sem tengist samningnum, þ.e. sértæka losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.

Uppruni losunar gróðurhúsalofttegunda er margþættur en í grundvallaratriðum tengist myndun á losun þeirra niðurbroti á lífrænu efni og er myndun þeirra því hluti í hringrás kolefnis og niturs í náttúrunni. En samkvæmt rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um verndun andrúmsloftsins er þeirri starfsemi sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda skipt upp í sex undirflokka.

Athygli okkar hefur fram til þessa beinst frekar að öðrum þáttum en landbúnaði og mismunandi framleiðsluferlum innan landbúnaðarins. Þó kemur losun gróðurhúsaáhrifa frá landbúnaði hér á landi næst á eftir losun frá brennslu eldsneytis sem er langmest og nær fjórfalt meiri en frá landbúnaði. Breyting vegna landnýtingar og landnotkunar, þ.e. skógrækt og landgræðsla, vegur á móti losun frá öðrum landbúnaði.

Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Kolbrúnar Halldórsdóttur, hafa um nokkurra mánaða skeið verið stundaðar rannsóknir hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins á flæði gróðurhúsalofttegunda úr ýmsum gerðum úthaga, allt frá lítt grónum svæðum yfir í frjósamt graslendi og frá blautum mýrum yfir í fullframræst svæði. Þessar rannsóknir eru þegar farnar að gefa nokkuð ljósa mynd af ástandi og eðli flæðis og hringrásar kolefnis og niturs í mismunandi jarðvegi. Það er ljóst að mælingar sýna að við lækkun vatnsstöðu eykst jarðvegsöndun mikið en geta gróðursins til að binda koltvísýring stendur í stað og jafnvel minnkar. Því er mikilvægt, hæstv. forseti, að taka niðurstöðu rannsóknanna alvarlega. Það er aukin losun gróðurhúsalofttegunda og okkur ber því að uppfylla ákvæði Ramsar-samningsins um (Forseti hringir.) framkvæmdaáætlun um endurheimt votlendis og slá þar með tvær flugur í einu höggi.