131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:51]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Það hefur ekki verið mikil umræða um framræslu mýra áður en þessar rannsóknir voru kunngerðar eða niðurstöður þeirra en þó hefur þetta verið örlítið í umræðunni í gegnum tíðina. Það er svolítið magnað að hugsa til þess að það er stutt síðan farið var út í þetta. Menn fóru ekki að ræsa fram mýrar að einhverju marki fyrr en eftir seinna stríð og það náði hámarki á 7. áratugnum. Það var auðvitað gert til að bæta hag og aðstöðu til landbúnaðar og svo sannarlega hefur það hjálpað til, a.m.k. ef marka má þá menn sem gerst þekkja til en þeir telja að t.d. í Austur-Landeyjum hafi verið illa búandi þangað til menn fóru í þetta framtak og núna er þar afskaplega blómlegt landbúnaðarhérað, blómleg sveit á Suðurlandi.

Það breytir því hins vegar ekki að á þeim skamma tíma frá því að þetta var hefur margt breyst og það eru miklar breytingar í landbúnaði. Sá sem hér stendur er enginn sérfræðingur á því sviði en þó veit hann að það eru til nóg hey í landinu. Ef við skoðum þróunina sem er á Íslandi munum við örugglega ekki sjá mikla aukningu í hinum hefðbundna landbúnaði. Við verðum að hafa í huga, burt séð frá loftslagssjónarmiðum, að mýrar eru fæðuöflunarsvæði fyrir mófugla og vaðfugla og állinn t.d. nýtir þessi votlendissvæði. Það að ræsa þau fram hefur eyðilegt bæði læki og vötn sem renna frá þessum svæðum.

Virðulegi forseti. Í stuttu máli, burt séð frá þeim alvarlegu hlutum sem tengjast loftslagsþáttum sem mikið hefur verið rætt hér, þá er ég fylgjandi endurheimtingu votlendis og vona að gert verði enn þá meira af því en gert hefur verið áður. Ég vona að sátt sé um það hér og það tengist að sjálfsögðu eins og hér hefur komið fram (Forseti hringir.) loftslagsmálunum en þó að það væri ekki af þeirri ástæðu þá er ég samt sem áður fylgjandi því að moka í skurði.