131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:53]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þær rannsóknir sem hér eru ræddar virðast benda til að framræsla mýra hafi leitt til verri og meiri mengunaráhrifa fyrir landið en jafnvel Halldór Laxness sá fram á í sinni framsýnu grein, Hernaðinum gegn landinu, fyrir liðlega 30 árum. Hér er m.a. um að ræða alvarlegar afleiðingar af dapurlegum atvinnubótasjónarmiðum sem lengi hafa ráðið ferðinni í þeirri landbúnaðarpólitík sem við höfum rekið.

Það er umhugsunarefni að við skulum vera að ræða þetta mál við umhverfisráðherra því það virðist vera svo að í Stjórnarráðinu telji menn þessi mál ekki heyra undir umhverfismál því nefndin um votlendið er skipuð af landbúnaðarráðherra og kostuð af honum. Landgræðslan er hjá landbúnaðarráðherra og Skógræktin er hjá landbúnaðarráðherra, allt það mikilvægasta sem þetta mál varðar. Það minnir okkur á að það er löngu kominn tími til að við tökum þessar stofnanir og flytjum þær til umhverfisráðuneytisins því að þessi málaflokkur á að lúta stefnumörkun á forsendum umhverfisins en ekki landbúnaðarstefnunnar. Við þurfum að endurskoða forgangsröðun í landgræðslu út frá þessum rannsóknum og þessum sjónarmiðum því það hvort við höfum bókhaldslegar skuldbindingar til að draga úr þessari loftmengun er ekki það sem máli skiptir. Við höfum siðferðilegar skuldbindingar til að vinna gegn þeirri mengun á lofti og andrúmi heimsins sem af þessari pólitík okkar hefur leitt og við eigum að vinda bráðan bug að því með því að flytja þennan málaflokk til umhverfisráðherra og styðja hana og styrkja í þinginu til að leggja í þá leiðangra sem þar þarf.