131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[14:00]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum mjög góðar umræður um þessi mikilvægu mál. Þau eru flókin og það sem þyrfti t.d. að skoða er að meta nákvæmlega hvort útstreymið frá framræstum mýrum og illa förnu landi sé eingöngu af mannavöldum eða að einhverju leyti af náttúrulegum orsökum. Þá þyrfti líka að skoða hvort hægt sé að yfirfæra rannsóknir á takmörkuðum stöðum á allt landið og einnig hvort fleiri þættir landnýtingar frá fyrri tíð hafa haft áhrif, hvort við ættum að taka með afleiðingar aldalangrar eyðingar gróðurs og jarðvegs af mannavöldum o.s.frv.

Það er líka augljóst að örfoka land kann að binda kolefni úr loftinu með efnaveðrun. Niðurstöður rannsóknar hafa leitt það í ljós þannig að þessi mál eru ekki einföld. Það er gott að finna að það er samhljómur í málflutningi hv. þingmanna um þessi mál. Við erum sammála um gildi rannsókna á þessu sviði. Við erum sammála um að það beri að innheimta votlendi og það er ekki bara mikilvægt vegna útstreymis koldíoxíðs heldur líka vegna fjölbreytileika í lífríki náttúrunnar.

Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi skógrækt og landgræðslu og kom með tillögu um að færa þá málaflokka yfir til umhverfisráðuneytisins. Fleiri tóku undir þær óskir. Ég býst þó ekki við að landbúnaðarráðherra sé ljúft að verða við þeirri frómu ósk hv. þingmanna þó að sú sem hér stendur mundi fagna því að svo yrði.