131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[14:17]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf slæmt í rökræðu þegar menn fara að koma með svona sleggjudóma. (ÖJ: Nú?) Hann furðar sig á því hve margar mótsagnir rúmist í einum manni. Eru þetta einhver rök í málinu? (ÖJ: Já.) Nei, þetta eru aldeilis ekki nein rök í málinu. (ÖJ: Að benda á mótsagnir?) Nei, nei, málið er það að við erum að ræða kosti og galla ákveðinna mála og þá eiga menn að ræða það, ekki gefa mönnum einkunnir. (ÖJ: En líka mótsagnir.) Það á bara ekkert að vera að gefa mönnum einkunnir fyrir það. Ég er ekkert að gefa hv. þingmanni einkunn fyrir eitt eða neitt. (ÖJ: Nú, það var spurt um einkunnagjöf hér áðan.)

Hv. þingmaður sagði að verkalýðshreyfingin byggði á lýðræðislegu starfi. Er það svo? Af hverju í ósköpunum þarf þá að skylda menn til að greiða gjald til stéttarfélaga fyrst þetta er svona lýðræðislegt? Af hverju verða menn að borga skatt til þessarar hreyfingar ef þeir ekki vilja það og þetta er allt svona lýðræðislegt?

Svo sagði hv. þingmaður, og með réttu, að verkalýðshreyfingin ætti að fjalla um grunnþætti þjóðfélagsins. Það getur vel verið rétt en hún á ekki að mynda sér skoðun á því fyrir hönd félagsmanna sinna nema það sé frjáls aðild, þá getur hún það. Ef það er frjáls aðild geta þeir sem vilja og ekki sætta sig við stefnumörkunina sem stéttarfélagið hefur náð fram sagt sig úr því og hætt að borga í það.

Þeir geta það ekki í dag. Þeir skulu borga fyrir skoðun stjórnar BSRB í ýmsum málum, hvort sem þeir vilja eða ekki. Hv. þingmaður svaraði því ekki af hverju í ósköpunum menn eigi að borga fyrir skoðun sem þeir eru á móti, að þeirri skoðun sé dreift til allrar þjóðarinnar. Hvernig geta menn yfirleitt gert þetta, hvernig geta þeir gert fólki þetta? Fólkið þarf að horfa upp á það að skoðun sem það er eindregið á móti sé fjármögnuð af því sjálfu. Þetta er eins og að láta menn smíða sverðið til að höggva sig með.