131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[14:19]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins enn um mótsagnirnar. Hv. þingmaður telur að þótt aðild að verkalýðsfélögum væri algjörlega frjáls alls staðar í þjóðfélagi yrðu þau áfram til.

Ég hef hins vegar staðhæft að grundvelli þeirra væri ógnað af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi væru þeir einstaklingar — eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem sjálfur reyndi að komast út úr verkalýðsfélagi — sem vilja fleyta rjómann ofan af og njóta ávaxtanna af starfi annarra, annars vegar er það. Hins vegar er það ásetningur atvinnurekenda að bola fólki út úr félagslegu starfi af þessu tagi, stilla atvinnulausu fólki upp við vegg og segja: Ég skal ráða þig í vinnu að því tilskildu að þú standir utan verkalýðsfélaga og njótir ekki ávaxtanna af því starfi sem þar fer fram.

Þannig hefur krafa sem er lagt upp með upphaflega sem mannréttindakröfu snúist upp í andstæðu sína. Það er þetta sem ég óttast. Þess vegna hef ég sagt: Lítum á verkalýðshreyfinguna sem grunnþátt í samfélaginu, í þjóðfélaginu. Þegar þjóðfélagið eða samfélagið er annars vegar spyrjum við ekki einstaklinga þegar við viljum gefa valfrelsi, og við erum fylgjandi því að hafa það sem víðast: Vilt þú standa utan þjóðfélagsins? Vilt þú ekki kannski greiða neina skatta? Ætlarðu ekkert að vera með?

Nei, við erum í samfélagi og öxlum ábyrgðina saman á því samfélagi, við að byggja það upp, búa það til og gera það að siðaðra manna hætti.

Eins vil ég líta á verkalýðshreyfinguna sem einn af grunnpóstum í fjölþáttalýðræðisþjóðfélagi. Ég hef áhyggjur af því ef öfgafrjálshyggja, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal er í forsvari fyrir, nær einhverri fótfestu hér á landi. Ég vona að svo verði ekki.