131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[14:21]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög athyglisverð yfirlýsing hjá hv. þingmanni. Ég veit ekki betur en að þingmönnum sé gert að sverja eið að stjórnarskránni. Samkvæmt henni er félagafrelsi í landinu, hvort sem menn vilja eða ekki.

Hv. þingmaður lýsir því yfir að hann sé bara á móti þessu ákvæði í stjórnarskránni í vissum atriðum. Mér finnst þetta vera þó nokkuð alvarlegt. (Gripið fram í: Ha?) Það stendur í stjórnarskránni að mönnum sé frjálst að standa utan félaga, hvort sem hv. þingmanni líkar það vel eða illa. (Gripið fram í: … líka?) Nei, það stendur í stjórnarskránni að menn skuli borga skatta. Það er tekið fram í stjórnarskránni hvað má og hvað ekki. Sem betur fer er stjórnarskráin vörn einstaklingsins fyrir ofríki ríkisvaldsins og annarra einstaklinga, þar á meðal stéttarfélaga.