131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[14:48]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil koma upp og lýsa eindregnum stuðningi við þá þingsályktunartillögu sem lögð er fram af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar sem segir til um þyngd málsins í þeirra huga. Þingsályktunartillagan hefði getað verið sniðin í smiðju Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs svo vel fellur hún að hugmyndafræði okkar og pólitískum áherslum.

Farið er inn á mjög mikilvæga þætti í þingsályktunartillögunni, að fela ríkisstjórninni að gera heildstæða áætlun um aðgerðir til að auka notkun farartækja sem nýta endurnýjanlega innlenda orkugjafa. Töluverð þekking er til staðar til að hrinda þingsályktunartillögunni í framkvæmd því nú þegar eru í umferð bifreiðar sem nota bæði rafmagn og metangas, en ég er ekki ein um að telja að við hefðum átt að setja miklu meiri kraft í heildstæða áætlun til að auka hlut farartækjanna í samgöngum okkar. Það er hægt að gera með margvíslegum hætti. Við værum þá, eins og við erum í dag, frumkvöðlar hvað varðar notkun á rafmagnsbílum, en fleira kemur til. Huga þarf að skattlagningu og að auðvelda fólki sem hefur áhuga á því að aka um á slíkum bílum að eignast þá og geta keyrt um, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur víðar. Þetta er því áætlun til einhverra ára því þetta er ekki gert í einu vetfangi.

Hvað varðar metangasið er alveg ljóst að það er mjög nýtanlegt á bifreiðar. Með því að efla hlut þeirra bifreiða sem nota metangas sláum við tvær flugur í einu höggi því að með því getum við nýtt það metangas sem er framleitt af mannavöldum, má segja, sem kemur frá sorphaugunum í stað þess að það fari í andrúmsloftið eða brennt eins og gert er í dag, að orkan sem sannarlega er til staðar verði notuð til þess að knýja áfram bifreiðir.

Það er mikil mengun af losun lofttegunda frá skipaflotanum okkar sem hefur áhrif á gróðurhúsaáhrifin eða gróðurhúsalofttegundir eins og farið er að kalla það. Til er tækni til að minnka brennslu á núverandi kolefnaeldsneyti á eldri skipum og stórefla minnkun á notkun kolefnisorkugjafa á nýjum skipum. Íslenskt fyrirtæki hefur lagt stund á og metnað í þær rannsóknir og ég tel að standa þurfi vel við bakið á því fyrirtæki og öðrum sem fara inn á þessar brautir og stuðla að því að íslenski skipaflotinn fari markvisst inn á þá braut að nota vistvæna orkugjafa og minnka útblásturinn með öllum ráðum.

Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns og hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur tók Kyoto-bókunin gildi í gær og er orðin bindandi samningur. Ég held að lýðum sé orðið ljóst að losun gróðurhúsalofttegunda hefur mjög mikil og hnattræn áhrif á veðurfar og á möguleika okkar til lífs á jörðinni. Við verðum að horfa á uppspretturnar, losunina á mengandi lofttegundum, það er númer eitt og síðan hvernig við getum bundið kolefni eins og með gróðursetningu og því sem við ræddum í dag um endurheimt votlendis eða að grafa niður í skurði, það er framhaldið. Ef við ætlum að standa undir nafni sem þjóð sem vill stuðla að sjálfbærri þróun eru samgöngutækin ekki síst til þess fallin að einbeita sér að í þessari stóru mynd. Gefa þarf öðrum farartækjum möguleika í samgöngukerfi okkar, eins og reiðhjólum, sem verða þá eðlilegur hluti af samgöngum okkar og til þess þurfum við að leggja sérstakar brautir.

Þetta er umfram það sem þingsályktunartillagan segir til um því hún einbeitir sér að farartækjunum og það er nægilegt verkefni. En við þurfum að hafa þessa heildstæðu mynd og því styðjum sannarlega þingsályktunartillöguna og ég vona að það verði nægur tími til að senda hana út til umsagnar og afgreiðslu á þessu vorþingi.