131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:15]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að þingmaðurinn sé viðkvæmur fyrir ræðu minni. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að ég er mikil áhugamanneskja um þetta verkefni. Ég hef tekið þátt í dansinum. Ég tala eins og hv. þingmaður þegar ég er með útlendingum. Ég tók á móti þýskum þingmanni, ekki til að fjalla um þessi mál heldur til að fjalla um önnur mál. Hann fór að lýsa fyrir mér hvernig þessi mál stæðu og á hverju hann væri hissa. Ég sagði nákvæmlega það sama við hæstv. iðnaðarráðherra þegar ég spurði um virkjanamálin á dögunum. Ef það er orkuspá í gangi og áætlun fyrir virkjanir til að framleiða vetni þá kom það ekki fram í svörum við fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra. En sé svo væri ég mjög ánægð að heyra það.

Ég vona að við getum orðið fyrsta þjóðin með hreint hagkerfi. Það er mjög gott ef aðrar þjóðir geta öfundað íslensku ríkisstjórnina af því að Íslendingar hafi innstæðu fyrir því sem samið hefur verið um, mjög gott.

Ég ætla líka að segja, út af vetnisvögnunum, að ég hafði einnig nefnt það að vetnisvagnarnir væru að koma, áður en ég fór að kafa í verkefnið. Þá var sagt við mig: Heyrðu Rannveig, veistu hve margar borgir í Evrópu notast við vetnisvagna? En hér tölum við alltaf eins og við séum að gera eitthvað einstakt. Ég er ekki að gera lítið úr því sem gert er. Ég gagnrýni að menn haldi því fram að það sé meira en innstæða er fyrir. Við flytjum þessa tillögu vegna þess að við viljum að þetta verkefni komist áfram. Við styðjum ríkisstjórnina í því en við viljum líka að innstæðan sé meiri en hingað til hefur verið.