131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:17]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Á öllum alþjóðlegum umhverfis- og vetnisráðstefnum sem haldnar hafa verið síðustu árin vekur Ísland einmitt mikla athygli fyrir mikla innstæðu, þótt hún hafi farið fram hjá hv. þingmanni. Hún nefndi að hér væru bara þrír vetnisstrætisvagnar en svo væri einnig í níu öðrum borgum í Evrópu. Þá er rétt að upplýsa hv. þingmann um hvers vegna svo skuli vera í níu öðrum borgum í Evrópu? Það var vegna þess að það náðist samkomulag Íslenskrar NýOrku og íslenskra stjórnvalda við DaimlerChrysler-verksmiðjurnar um að hér skyldu koma þrír strætisvagnar.

Þegar það spurðist út óskuðu níu aðrar borgir eftir því að fá vetnisvagna til sín. Þess vegna seinkaði komu vagnanna hingað en af því varð strax árangur og það er einmitt það sem vetnissamfélagið alþjóðlega segir: Ykkar skref eru okkur hvatning. Einmitt þessir strætisvagnar sem hv. þingmaður nefndi í Evrópu eru sönnun og dæmi þess að við höfum látið gott af okkur leiða vegna þess að hér er skýr stefnumörkun.

Það liggur líka fyrir og er viðurkennt af Orkustofnun að til þess að fullnægja þörf okkar fyrir vetni á allar okkar samgöngur og á fiskiskipaflotann með efnarafölum þarf ekki nema 8–10% af virkjanlegri orku á Íslandi. Við nýtum ekki nema lítið brot af henni og þegar ég segi 8–10% þá eru helstu náttúruperlur undanskildar. Þetta er staðfest af Orkustofnun.

Það er ekki heldur alveg rétt hjá hv. þingmanni að vetnisbílar komist ekki nema 150 km. Á strætisvagnana dugir ein fylling á sólarhring. Þeir keyra upp undir 200 km á dag í höfuðborginni og þess vegna var Reykjavík m.a. valin. En nýjustu vetnisbílar komast 500 km á fyllingunni. Það liggur líka fyrir að á næstu missirum munu vetnisbílaframleiðendur senda á markað fyrstu vetnisbílana.