131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:19]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega hissa á því að hv. þingmaður skuli vera svo æstur yfir umræðunni. Hann tekur undir tillögur okkar. Hann segir sjálfur að sveitarfélögin þurfi að búa sig undir það sem koma skal. Í tillögu okkar er þess getið að áætlunin feli jafnframt í sér tillögur að samstarfi ríkisins við sveitarfélög. Við viljum m.a. tryggja að það fari í gang af því að í þá vinnu hefur greinilega ekki verið farið af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Þingmaðurinn talaði um að á öllum ráðstefnum væri horft hingað. Það var ég líka að segja. Ég sagði frá fundi sem haldinn var í Pentagon þar sem stórt kort af Íslandi var hengt upp á vegg og sagt: Sjáið, þarna verður fyrsta hreina hagkerfið. Þegar mér var sagt frá þessu þá varð ég óhemjustolt. Það var ekki fyrr en ég fór að vinna að verkefninu, kynna mér það og tala við fjöldann allan af sérfræðingum sem vinna í þessu að ég gerði mér grein fyrir því hve skammt menn eru komnir. Ég finn náttúrlega að þingmaðurinn er mjög miður sín að heyra það.

Varðandi hvort bílarnir komist 150 km eða ekki þá fékk ég þær upplýsingar hjá sérfræðingi og að það væri mikilvægt að þegar þar að kæmi væri hægt að nýta þær áfyllingarstöðvar sem eru til í dag en ekki byggja upp nýtt kerfi.

Það er líka ljóst að ef við getum framleitt vetni bæði fyrir báta- og bílvélar þá þurfum um það bil eitt stykki Kárahnjúkavirkjun eða ígildi hennar, 5 teravattstundir, til að framleiðslunnar. En eigi að framleiða efni á hefðbundnar bensínvélar þarf 10 teravattstundir. Á hinn bóginn er það að verða viðkvæmt mál, þ.e. orkugeirinn allur. Fólk er að hverfa frá vatnsaflsvirkjunum. Það þarf ekki nema lesa Morgunblaðið frá því fyrir hálfum mánuði til að sjá það. Nú þurfum við að fara í jarðvarmann og hann er heldur ekki óendanlegur.