131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:22]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Reyndar tel ég að hún hafi sannað að það er sannarlega ástæða til að samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Ég minni á að það er verið að flytja hana öðru sinni.

Hv. þm. Hjálmar Árnason upplýsti við umræðuna að verið væri að vinna í málinu, í gangi væru nefndir og einhver niðurstaða væri að koma. Hefði ekki verið skynsamlegt að taka á þessu máli þegar það var lagt fram af Samfylkingunni á síðasta þingi í stað þess að hnoðast áfram á bak við tjöldin í ríkisstjórnarflokkunum eins og gert hefur verið og virðist lítið ganga.

Það er að verða óþolandi að hlusta á íslenska stjórnmálamenn hæla sér fram og til baka af hlutunum eins og allt sé best í heimi sem þeir gera. Það hefur aldrei nokkurn tíma verið neitt á jörðinni sem er í námunda við íslenska stjórnmálamenn. Það liggur við að í hverri ræðu sé sagt frá því að sett hafi verið nýtt heimsmet. Íslenskir stjórnmálamenn voru að setja nýtt met. Við erum að gera best í heimi, er nánast í endanum á annarri hverri ræðu sem maður heyrir.

Ég er ekki vanþakklátur fyrir það sem gert hefur verið í þessum málum. En mér hefur stundum fundist að menn hafi skotið sér hjá því að gera það sem hægt er að gera. Hvernig stendur t.d. á því að bílaflotinn okkar er eins og hann er? Það hefur verið talað um það áratugum saman að við getum verið á miklu skynsamlegri bílaflota. En, nei. Af hverju er ekki búið að breyta því? Af hverju hafa menn ekki farið út í að kaupa hingað fleiri dísilbíla? Það er af því að stjórnvöld hafa ekki áhuga á málinu. Síðasta ákvörðun sem tekin var var um að við skyldum kaupa okkur fleiri og stærri jeppa. Það var síðasta afrekið í sölum Alþingis hvað þessa hluti snertir. Það hefur ekki mátt minnast á að setja einhvers konar reglur sem hefðu þau áhrif að menn mundu beita skipum betur við veiðar með tilliti til orkunýtingar. Ekki aldeilis. Það er verið að fikta í kerfinu ef eitthvað svoleiðis er gert. Það hefur ekki mátt ræða þær hugmyndir.

Almenningssamgöngur, hversu mikið skyldu þær hafa verið studdar þó að skrifað hafi verið undir það fyrir 7 árum í Kyoto að stjórnvöld ættu að styðja þær? Sjáum við einhvers staðar áætlun af því tagi í gangi? Hún er ekki til.

Við megum hins vegar ekki einblína á vetni eins og nú virðist gert. Það verður auðvitað að halda því máli áfram og standa vel að því en ég bendi á að hægt er að koma á úrbótum fyrr með því að taka upp einhverja metanól-nýtingu, sem við þurfum að gera að öllum líkindum fram að því að vetnisbílar geta komið að einhverju marki til sögunnar.

Ég verð síðan að minna á það sem er óþægilegt í þessu öllu, að fjármunir frá ríkissjóði hafa verið afar takmarkaðir til þessara mála. Peningarnir hafa komið að utan. Það er ágætt að fá peninga annars staðar frá en þeir segja líka til um hve mikið menn vilja sjálfir gera. Það hefur vantað mikið á hvað það varðar. Það vantar stefnumörkun og liggur t.d. ekkert fyrir um hvernig menn ætla sér að spara orku og vinna í þessum málum þann tíma sem vetnisvæðingin tekur.

Ég hitti þann ágæta mann Braga Árnason fyrir 30 árum af því að kunningi minn hafði mikinn áhuga á vetnismálum og vildi endilega fá að tala við þann galdramann. Kunningi minn var með hugmyndir um vél sem hann vildi setja í fiskiskip. Það sem Bragi sagði við hann var ansi sárt fyrir kunningja minn, sem er dáinn núna. Það eru 50 ár í þetta, sagði Bragi. En það eru liðin 30 ár af þeim 50 árum sem Bragi sagði þá að mundu líða þar til hægt væri að gera þessa hluti. Mér virðist að því miður muni ekki veita af þeim 50 árunum sem Bragi spáði þá að þyrfti til að hægt yrði að nýta vetnisorku á fiskiskipum á Íslandi. Þau verða fleiri ef það verður ekki unnið að þessum málum undir skynsamlegri stjórn sem menn hugsa fyrir, m.a. á þann hátt sem við leggjum til. Ég hvet þess að menn taki á sig rögg, setjist yfir þessa tillögu og hún komist til afgreiðslu í sölum Alþingis.