131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:32]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og komið hefur fram í þessum umræðum í dag hefur þróunin orðið mjög ör og við eigum von á því að hún verði enn örari. Það hefur líka komið fram og er viðurkennt að það er mjög langt þangað til vetnisbílar verða að veruleika. Hins vegar höfum við aðra bíla sem eru mun meira orkusparandi en þessi týpíski bensínbíll, fjölskyldubíll sem er algengastur. Þar skiptir miklu máli að nú erum við að taka upp olíugjald og kílómetragjald þannig að sparneytnir dísilbílar verða þá mun hagkvæmari.

Það hefur líka komið fram að tvíorkubifreiðarnar fá verulegan afslátt af vörugjaldi og einnig eru þær bifreiðar algjörlega undanþegnar vörugjaldi sem eru knúnar óhefðbundnum orkugjöfum og rafhreyfli. Auðvitað er verið að vinna að þessu á ýmsum sviðum og í fjármálaráðuneytinu er verið að fara yfir þetta skattumhverfi. Í umhverfisráðuneytinu er einnig verið að vinna að þessum málum. Menn eru mjög metnaðarfullir og það er engin ástæða til að halda öðru fram. Það hefur komið mjög vel fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar hvað menn eru að vinna í vetnisverkefninu þannig að það er engin ástæða til að tala um þetta með þeim neikvæða hætti sem hv. þingmaður gerði.