131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:00]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nokkrir tugir milljóna, segir ráðherrann, nýbúinn að fella tillögur okkar við fjárlagagerð um að bæta nokkrum tugum milljóna til samkeppnismála. Georg Ólafsson, forstjóri Samkeppnisstofnunar, upplýsti fjárlaganefnd um að það vantaði 100 milljónir, svo vel væri, og þrátt fyrir að hér væri bætt við nokkrum tugum milljóna þá stenst stofnunin ekki samjöfnuð við Póst- og fjarskiptastofnun og Fjármálaeftirlitið sem hafa þó miklu minna verksvið. Ráðherra hefur ekki legið á því að tjá sig annars staðar en hér um væntanlegt frumvarp í samkeppnismálum og það er alveg nauðsynlegt að ráðherrann svari þeim spurningum sem til hennar var beint þar að lútandi. Er ætlunin að þriggja manna ráðherraskipuð stjórn ráði því framvegis hvað verður rannsakað og hvað ekki? Er ætlunin að auglýsa störf forstjóra og stjórnenda Samkeppnisstofnunar, hinnar nýju Samkeppnisstofnunar? Verða það þá lyktir olíumálsins að sá sem hafði frumkvæði að því og tók ákvörðun um að rannsaka olíufélögin, Georg Ólafsson, forstjóri Samkeppnisstofnunar, þurfi að sækja um sitt starf á nýjan leik? Og mun sá sem fór fyrir þeirri mikilvægu rannsókn ekki eiga stuðning ráðherra samkeppnismála til áframhaldandi starfa, frumkvæðis og forustu í þessum mikilsverða málaflokki?

Þeim spurningum sem settar hafa verið fram í umræðunni verður hæstv. ráðherra að svara.