131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:05]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að endurtaka það enn einu sinni að ég ætla ekki að ræða frumvarp sem ekki hefur verið dreift hér. En ég verð að leiðrétta eitt vegna þess að það tel ég mig hafa fulla heimild til, það varðar þó ekki þetta frumvarp, en það er þegar hv. þingmaður heldur því fram að ég sem viðskiptaráðherra hafi ekki viljað láta rannsaka olíufélögin. Hefur það ekki komið fram opinberlega að ég skrifaði … (Gripið fram í.) Í eina skiptið sem ég hef haft afskipti af störfum Samkeppnisstofnunar á mínum ferli sem viðskiptaráðherra var þegar ég skrifaði bréf til samkeppnisyfirvalda og benti þeim á hvort ekki væri ástæða til einmitt að fara í þessa rannsókn. Svo kemur hv. þingmaður hér upp og heldur því fram að ég hafi ekki viljað láta rannsaka olíufélögin. Þetta er svo dæmalaus málflutningur að mig undrar að hv. þingmaður skuli leyfa sér að bera þetta á borð.