131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:06]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ástæða þess að ég er kominn í þennan ræðustól er sú að mig langar til að leggja orð í belg varðandi þessa tillögu til þingsályktunar um að gerð verði úttekt á fjárþörf Samkeppnisstofnunar. Tillagan er lögð fram af fjórum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar. Þar er lagt til að Alþingi feli viðskiptaráðherra að láta slíka úttekt fara fram.

Í greinargerðinni kemur fram að hugmyndin að því að slík úttekt verði gerð hafi komið fram af hálfu forstjóra Samkeppnisstofnunar og það hafi hann gert í ársskýrslu Samkeppnisstofnunar árið 2003. Það er í sjálfu sér eitt og sér athyglisvert að þingmenn Samfylkingarinnar skuli svara kalli forstjóra Samkeppnisstofnunar svona hratt og vel en þetta er í sjálfu sér hvorki nýtt mál né mjög spennandi. Þetta er gömul saga og ný að forstjórar ríkisfyrirtækja eða ríkisstofnana óski eftir auknum fjárframlögum úr ríkissjóði til að stunda starfsemi sína. Ég kannast alla vega ekki við neina ríkisstofnun sem telur sig ekki geta verið án meiri peninga til að standa undir rekstri sínum og það væri ágætt ef einhverjir hv. þingmenn sem hér eru staddir í salnum gætu bent mér á þá stofnun sem teldi sig hafa of mikið umleikis í peningamálum.

Einnig segir í greinargerðinni að á umliðnum árum hafi iðulega komið fram að Samkeppnisstofnun hafi verið illa í stakk búin til að sinna hlutverki sínu sökum manneklu og fjársveltis. Ég leyfi mér hins vegar að halda því fram að Samkeppnisstofnun hafi ekki verið haldið í neinu fjársvelti, síður en svo. Það er hins vegar þannig að sá áróður dynur á okkur, kannski ekki dag eftir dag en mjög reglulega að samkeppnisyfirvöldum sé haldið í fjársvelti og þess vegna geti Samkeppnisstofnun ekki sinnt hlutverki sínu. Ég verð að segja að mér finnst reyndar með ólíkindum að þeir fréttamenn sem flytja fréttir af þessu máli skuli ekki kanna það með hvaða hætti fjárframlög til Samkeppnisstofnunar og samkeppnisyfirvalda hafa aukist á undanförnum árum. Það er bara tekið upp án þess að málin séu könnuð nánar að stofnunin sé í fjársvelti en ekki athugað hvort eitthvað standi á bak við þau orð.

Ef við förum aðeins yfir þetta fjársvelti þá er það þannig að í öllu fjársveltinu hafa fjárveitingar til Samkeppnisstofnunar frá árinu 1998 aukist um 87% úr 85 eða 86 milljónum í 157 milljónir. Fjárframlögin hafa aukist um næstum 87% frá árinu 1998. Þetta er það fjársvelti sem stofnuninni hefur verið haldið í. Ef við skoðum fjárlögin fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir að 20 millj. kr. aukning verði til viðbótar þessu á árinu og fjárframlögin aukist upp í 177 millj. kr. Við erum því að tala um að frá árinu 1998 hafi aukningin á fjárframlögum til Samkeppnisstofnunar aukist um hartnær 100%. Þetta er allt fjársveltið.

Einnig er athyglisvert að skoða þessar tölur í ljósi þess að ekki alls fyrir löngu barst svar viðskiptaráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð. Þar varpar sá vörpulegi þingmaður fram þeirri spurningu hver starfsmannafjöldi Samkeppnisstofnunar hafi verið þessi ár, þ.e. frá 1993–2003. Í því svari kemur fram að á árinu 1998 var starfsmannafjöldi Samkeppnisstofnunar 22,6 en á árinu 2003 22,7. Það hefur sem sagt fjölgað í starfsliði Samkeppnisstofnunar um 0,1 stöðugildi frá árinu 1998 á meðan fjárframlög til stofnunarinnar hafa aukist um þetta 100%, a.m.k. 87% frá árinu 1998–2004. Svo er því haldið fram að stofnunin geti ekki sinnt hlutverki sínu og sé í fjársvelti.

Ég leyfi mér að halda því fram, herra forseti, að hér sé verið að gera úlfalda úr mýflugu. Verið sé að kasta ryki í augu almennings og menn verði að fara að tala aðeins ábyrgara um þessi samkeppnismál en þeir hafa gert hingað til og halda til haga öllum þeim staðreyndum sem fyrir liggja varðandi þessa stofnun.

Ég velti því líka fyrir mér og ágætt væri að fá svör við því frá hv. málsflytjendum hvort ekki sé hægt að leita einhverra annarra leiða en þeirrar sem hér eru lagðar til hvað varðar Samkeppnisstofnun og málsmeðferð þar og hraða. Getur lausnin á þeim vanda sem flutningsmennirnir telja að stafi af eða sæki að rekstri Samkeppnisstofnunar ekki verið fólgin í einhverju öðru en því að kalla eftir endalausum fjárframlögum, aukafjárframlögum úr ríkissjóði? Ég leyfi mér t.d. að nefna eitt dæmi. Í 18. gr. núverandi samkeppnislaga er ákvæði um að óheimilt sé að renna saman tveimur fyrirtækjum ef sameiginleg velta þeirra er 1 milljarður eða meiri. Fyrirtæki sem velta 1 milljarði eða meira mega ekki samkvæmt núgildandi lögum renna saman nema Samkeppnisstofnun samþykki þann samruna.

Ef við skoðum lista frá Frjálsri verslun yfir fyrirtækin í landinu kemur í ljós að velta 153 fyrirtækja nemur 1 milljarði eða meira og 220 fyrirtæki velta 500 milljónum eða meira. Þetta þýðir að það má naumast enginn samruni í landinu eiga sér stað án þess að Samkeppnisstofnun leggi blessun sína yfir það. Væri ekki viturlegra ef menn vilja hraða málsmeðferð að leggja það til að þessu ákvæði yrði breytt þannig að Samkeppnisstofnun þyrfti ekki að vera að vasast í hverjum þeim samruna sem verður á Íslandi og geti þá sinnt betur og hraðar öðrum þeim málum sem eftirlitinu eða stofnuninni er ætlað að sinna?