131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[16:23]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að fjárframlög til Samkeppnisstofnunar hefðu aukist um 87% en ég get ekki betur séð en það hafi verið á verðlagi hvers árs, ef ég sé rétt á svar sem hv. þm. Kristján L. Möller fékk. Árið 1998 fékk Samkeppnisstofnun 93,5 millj. á verðlagi ársins 1998, en ef farið er á verðlag ársins 2004, og náttúrlega rétt að framreikna verðlag til þess árs sem á að bera saman við, er það sambærileg upphæð. Ef tekin er líka inn verðbólga erum við að tala kannski um 30% hækkun en ekki 87%. Mér finnst að við eigum ekki að vera með villandi málflutning.

Varðandi það að hnýta í starfsmenn, eins og hv. þingmaður gerði í andsvari við hv. þm. Jóhann Ársælsson, finnst mér að hann ætti frekar að líta til eigin flokks og líta á að það er hæstv. fjármálaráðherra sem ber náttúrlega ábyrgð á þeim vexti sem hefur orðið í ríkisgeiranum en ekki starfsmenn Samkeppnisstofnunar.