131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kvennahreyfingin á Íslandi.

56. mál
[16:54]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mitt erindi í ræðustólinn að þessu sinni er að lýsa stuðningi við prýðilega tillögu þeirra hv. þingmanna Kolbrúnar Halldórsdóttur og Þuríðar Backman. Sem betur fer er það opinber stefnumörkun á Íslandi að stuðla að jafnrétti kynjanna og raunar ýmsu öðru jafnrétti. Hver einasti stjórnmálaflokkur tekur a.m.k. í orði undir þá stefnu, einkum þegar nálgast kosningar. Það er engin ástæða til að ætla að stjórnmálaflokkarnir meini ekki það sem þeir segja um þau mál. Þeir hafa hver með sínum hætti, þegar þeir hafa haft aðstöðu til í ríkisstjórn eða í forustu sveitarfélaga, beitt sér fyrir árangri í þessum efnum. Ég held að það sé rétt að undanskilja engan stjórnmálaflokk í því efni.

Ýmis réttindamál að eiga sér sinn tíma. Fram koma hugsjónamenn og baráttumenn fyrir ákveðnum réttindum eða fyrir því sem á þykir skorta í samfélaginu. Þeir berjast hetjulega og um þá myndast hreyfingar fyrir baráttumálinu. Hreyfingarnar koma einhverju á legg sem síðan hefur oft, a.m.k. í okkar heimshluta eða hér á Norðurlöndum, orðið til þess að hið opinbera, sveitarfélög eða ríki, hafa með einhverjum hætti tekið við því. Það má nefna leikskólana sem dæmi um slíkt. Hér er ekki um þvílíkt mál að fást. Jafnréttismálin eru brýnt úrlausnarefni enn þá þótt liðin séu 100 eða 120 ár frá upphafi hinnar klassísku kvennahreyfingar eða um það bil 30 eða 35 ár frá upphafi hinnar nýrri kvennahreyfingar. Ég ætla ekki að fara í sundurgreiningar á þeim nær okkur í tíma. Enn vantar þó mikið á og ég held að jafnréttismálin verði, jafnvel í besta heimi allra heima sem einhvern tíma rennur upp, sífellt verkefni. Hver einasta ný kynslóð þarf að móta afstöðu til málsins og koma sér niður á hvernig jafnréttismálunum sé best háttað og hvernig með þau eigi að vinna. Þess vegna er svo mikilvægt, forseti, að til sé veruleg hreyfing og samtök í grasrótinni í þessum efnum, að kvennahreyfingin sé sterk og öflug og aðrir hópar sem vinna að jafnari stöðu kynjanna á Íslandi eða í heiminum, eins og það er orðað í þingsályktunartillögunni, séu líka sterkir. Margt gott er hægt að gera í ráðuneytum eða sveitarstjórnum en það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir þann áhuga, þann vilja, kraft og stuðning og þrýsting sem kemur frá samtökum í grasrótinni, hvort sem um er að ræða samtök sem upp koma og eiga við tiltekinn tíma eða formlegri samtök sem eiga sér töluverða sögu, t.d. Kvenréttindasamband Íslands.

Það væri vel við hæfi að þessi tillaga eða einhver svipuð yrði samþykkt á þessu þingi. Eins og hv. flutningsmaður nefndi er núna merkilegt afmælisár, raunar ákaflega margvíslega merkilegt í sögu kvenna og kvennahreyfingar á Íslandi. Hv. þingmaður nefndi Kvenfélagasambandið sem átti afmæli um daginn. Ég get nefnt tvennt í viðbót. Annars vegar kosningarrétt kvenna 1915, sem nú hefur verið í 90 ár og verður væntanlega haldið veglega upp á í byrjun sumars. Síðan er sjálft kvennaverkfallið orðið 30 ára og vonandi verður þess minnst með viðeigandi máta á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október.

Ég held að þetta sé góð tillaga. Einkum tel ég snjallt að stofna sjóð sem njóti sjálfstæðis frá hverjum og einum ráðherra þannig að það sé ekki undir þeim komið — að þeim algerlega ólöstuðum enda breytingar á ferð í þeim hópi, a.m.k. vonar maður það — þannig að það fari ekki eftir pólitík, hvorki flokkspólitík né persónupólitík ráðherrans, hvaða samtök og grasrótarhreyfingar kynnu að njóta styrkja eða stuðnings úr sjóðunum. Auðvitað má segja að þetta eigi með sínum hætti við allt félagslíf en þó er á það að minnast að önnur félagasamtök njóta oft og tíðum einhvers konar stuðnings, án þess að ég jafni kvennahreyfingunni saman við neitt annað vegna þess að hún er alveg sérstök. Íþróttahreyfingin nýtur þegar töluverðs stuðnings frá sveitarfélögum og má heita fastur liður að sveitarfélög styrki íþróttafélög á sínu svæði. Sama gildir um stjórnmálafélög þó að hagur þeirra hafi nú mjög versnað á síðari árum, t.d. eftir að póstgjald var hækkað og af ýmsum orsökum öðrum. En stjórnmálaflokkarnir hafa a.m.k. ákveðinn stuðning í gegnum fjárlög en það hafa grasrótarhreyfingar á þessu sviði, kvennahreyfingar og aðrir jafnréttishópar, ekki.

Ég vil svo í lokin spyrja hv. flutningsmann sem hér er stödd að því hvort hún eða þær hafi gert sér einhverjar hugmyndir um með hvaða hætti fjármagn geti runnið í þennan sjóð, hvort það eigi að fara af fjárlögum eða hvort það eigi að vera einhverjir tekjustofnar eða með hvaða hætti það geti verið.

Ég verð að vísu að segja að síðari liður tillögunnar er mér ekki jafnmikið fagnaðarefni og hinn fyrri og vil biðja hv. flutningsmann, ef hún ætlar í stólinn aftur, að skýra það betur hvað sá liður hefur eiginlega við hinn fyrri lið saman að sælda, því að þar er um að ræða eitthvert skipulag ráðuneyta og starfsliðs þeirra og ég sé í raun og veru ekki að það sé markmið sem hægt er að ná með þeim hætti að þingið t.d. gæti fylgt því eftir, ef það yrði svo gæfusamt að samþykkja þessa tillögu.