131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kvennahreyfingin á Íslandi.

56. mál
[17:02]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni afar jákvæðar móttökur og málefnalegar umræður um þessa tillögu.

Svör við spurningum hans í fyrsta lagi hvað varðar a-liðinn þá gerum við ráð fyrir að þessi sjóður verði stofnaður með ákveðnum lið í fjárlögum, þ.e. við hugsum okkur ekki að það séu einhverjir aðrir markaðir tekjustofnar en þeir að Alþingi Íslendinga samþykki upphæð til málaflokks á þessum nótum, þannig að það sé alveg á hreinu að við erum ekki að hugsa um neina aðra tekjustofna.

Varðandi síðan b-liðinn, um eins konar íhlutun í innri málefni ráðuneyta þá er sá liður kannski kominn til vegna þess að jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar hefur sýnt okkur og sannað að það gengur afar illa fyrir ríkisstjórnina að samþætta jafnréttismálin inn í öll þau störf sem unnin eru í stjórnsýslunni. Það eru fögur fyrirheit og það eru undirritaðir alþjóðlegir samningar og yfirlýsingar norrænna ráðherra um þessi mál, að jafnréttismálin verði samþætt inn í alla málaflokka, en það hefur tekist afar illa í ráðuneytum okkar. Ein af ástæðunum fyrir því er sú að innan ráðuneytanna hefur málaflokkurinn ekki haft nægilega mikið vægi. Hann hefur ekki verið vistaður eða haft þann sess sem honum ber. Það er vegna þess að það er enginn einn aðili í ráðuneytunum sem aðgætir það að jafnréttismálin séu samtvinnuð öllum þeim málum sem viðkomandi ráðuneyti vinnur með.

Þó erum við komin svo langt að ráðuneytin eiga að munstra jafnréttisfulltrúa í ráðuneytum sínum, en það eru þá venjulega einstaklingar sem sinna einhverjum allt öðrum störfum í ráðuneytunum og eiga að sinna jafnréttismálunum svona til hliðar.

Vægi þessa málaflokks í ráðuneytunum hefur ekki verið með þeim hætti að samþættingaráformin hafi getað gengið eftir. Það er svona hugmyndin eða hugmyndafræðin á bak við b-liðinn.