131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Greinargerð Seðlabanka um efnahagsmál.

[15:04]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra er á leiðtogafundi NATO.

Vegna þeirra spurninga sem hv. þingmaður bar fram er rétt að geta þess að hæstv. forsætisráðherra kynnti drög að skýrslu Seðlabankans í ríkisstjórninni sama daginn og hún kom. Af því tilefni urðu auðvitað umræður í ríkisstjórninni um þá þætti sem þar koma fram. Þar voru nokkur sjónarmið ofarlega í hugum manna og þó að ég reki að sjálfsögðu ekki samtöl sem eiga sér stað í ríkisstjórninni — mér er það ekki heimilt — er mér óhætt að segja að þau sjónarmið sem menn eru að skoða, bæði hér og annars staðar, eru þau að þegar verðbólgan virðist sýna sig í töluvert hárri tölu, a.m.k. á nútímamælikvarða, blasir við að helmingur þeirrar tölu er reistur á hækkun húsnæðis. Ef það er frá tekið eins og sumir gera — til að mynda þegar mælingar á verðbólgu eiga sér stað í Evrópusambandinu er það birt í tvennu lagi — er verðbólgan innan hæfilegra marka, þ.e. í kringum 2,5%.

Í annan stað hafa menn verið að ræða það að þegar verðbólga er mæld og útgjöld fjölskyldunnar reiknuð er ekki í það dæmi tekið að hagur fjölskyldunnar vænkast við miklar vaxtalækkanir og bætt lánakjör eins og er að gerast í landinu. Þetta var auðvitað rætt og ég hygg að þarna séu vissir þættir á ferðinni sem hæstv. forsætisráðherra hefur vísað til.

Ég mundi segja að það væri fjarri því að hægt væri að lýsa því yfir að ágreiningur ríkti milli Seðlabanka og ríkisstjórnar. Seðlabankanum eru sett þau skilyrði að huga nú, ekki eins og var forðum, að gengismálum sérstaklega eða stöðu þeirra heldur nánast eingöngu verðbólgunni. Jafnframt á hann, ef það rekst ekki á við önnur atriði, að fylgja eftir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.